137. löggjafarþing — 15. fundur,  5. júní 2009.

staðan í Icesave-deilunni.

[13:44]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi tek ég undir það sem forseti sagði áðan að það er sjálfsagt að ræða þetta mál. Ástæðan fyrir því að við viljum ræða þetta núna, frú forseti, er sú að málið er mjög stórt og það er með ólíkindum hvernig ríkisstjórnin ætlast til að stjórnarandstaðan komi í raun ekki að þessu máli.

Ég tek undir það sem hér hefur komið fram, að fundi sé frestað. Ég krefst þess að ráðherrarnir komi í salinn og ræði þetta mál við okkur. Ég krefst þess einnig að þeir lýsi því yfir að stjórnarandstaðan geti tjáð sig um þetta mál opinberlega líkt og þeir gera nú út um víðan völl. Þetta er algjörlega óþolandi.

Ég tek líka undir það að fundi sé frestað nú þegar og þingflokksformenn komi saman ásamt forseta til að ræða framgang þessa máls og að loknum þeim fundi verði ráðherrar hér til staðar og haldi áfram að ræða málið.