137. löggjafarþing — 15. fundur,  5. júní 2009.

staðan í Icesave-deilunni.

[13:51]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Komið hefur fram hjá virðulegum forseta að ræða eigi þetta mál í þingsölum. Gott og vel. En við þingmenn þurfum að fá að vita hvenær stendur til að skrifa undir þetta samkomulag. Við viljum að það sé möguleiki fyrir okkur að fara yfir málið áður en til slíkrar undirritunar kemur. Ég hlýt því að spyrja virðulegan forseta: Getur forseti tryggt að sú umræða fari fram áður en skrifað verður af hálfu íslenska ríkisins undir þennan samning sem er búið að ræða?

Ég tel líka og tek undir með þingmönnum sem hér hafa talað að það er algjörlega óásættanlegt fyrir Alþingi Íslendinga að menn gangist undir trúnað um upplýsingar og fylgist síðan með því þegar ráðherrar tjá sig um þau mál eins og enginn trúnaður sé. Þetta eru ekki vinnubrögð sem við getum sætt okkur við. Ég tel að virðulegur forseti eigi að hafa forgöngu um að stöðva þessa þróun, stöðva (Forseti hringir.) þessa umræðu, kalla viðkomandi ráðherra til (Forseti hringir.) þingfundar þar sem við getum rætt þessi mál á jafnréttisgrunni. (Forseti hringir.) Þetta gengur ekki svona.