137. löggjafarþing — 15. fundur,  5. júní 2009.

staðan í Icesave-deilunni.

[14:26]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Frú forseti. Ég tel afar brýnt að boðað verði til nýs þingfundar með nýrri dagskrá og við fáum að ræða þetta mál efnislega. Það er ljóst, a.m.k. í hugum okkar sem hér komum ný að verkum, að það þarf að ræða þetta mál frá grunni. Það hefur ekki verið útrætt í þingsalnum, og ég held ekki meðal þjóðarinnar, hvort það hafi verið fullkannað, til að mynda fullyrðingar virðulegra lagaprófessora þess efnis að við þurfum ekki að borga þessa Icesave-reikninga, að við þurfum ekki að standa við þær skuldbindingar, þetta sé umfram það sem standi í EES-samningnum. Það er lágmark að slík efnisleg umræða fari fram í ljósi þeirra upplýsinga sem við fengum á þingflokksfundum í morgun en vorum bundin trúnaði um. Og ég ítreka ósk, bæði mína og annarra hv. þingmanna, um að þeim höftum verði af okkur létt þannig að við getum talað hér (Forseti hringir.) tæpitungulaust og efnislega um þetta mál.