137. löggjafarþing — 15. fundur,  5. júní 2009.

meðferð ríkisbanka á fyrirtækjum í greiðsluerfiðleikum.

[14:57]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Frú forseti. Ég deili að mörgu leyti áhyggjum hv. þm. málshefjanda, Birkis Jóns Jónssonar, um að það skortir traust meðal almennings á íslenskt bankakerfi og það þarf að byggja það upp. Ég held að íslenskir bankamenn sem og alþingismenn séu sammála um þetta atriði.

Ég vildi vekja athygli á því frumvarpi sem nú er til meðferðar hjá efnahags- og skattanefnd þar sem við erum sérstaklega að skoða hvernig bankarnir meðhöndla þau fyrirtæki, þ.e. þau rekstrarfyrirtæki sem þeir hafa nú fengið upp í hendurnar. Frumvarpið hefur tekið miklum breytingum á vettvangi nefndarinnar enda er sameiginlegur vilji okkar allra að tryggja að um meðferð atvinnufyrirtækja gildi samræmdar og gagnsæjar reglur um það hvernig bankarnir taka á slíkum fyrirtækjum. Innan nefndarinnar horfum við til þess að eignaumsýslufélagið verði ráðgefandi og tryggi samræmdar og gagnsæjar reglur. Það á við þegar fyrirtækin eru seld að þeim sé ráðstafað með gagnsæjum hætti, að teknu tilliti til sjónarmiða um jafnræði, virka samkeppni, dreift eignarhald o.s.frv. Við sitjum hins vegar uppi með hin opinberu afskipti en við eigum að forðast pólitísk afskipti og um það erum við öll sammála. Það er hlutverk ríkisins að skapa rammann, tryggja vinnubrögðin en ekki að hlutast til um einstök verkefni. Og ég held að það sé markmið okkar allra með þeim lagaramma sem við erum að vinna í og ræða á vettvangi nefndarinnar og vonandi lítur dagsins ljós á næstu dögum.