137. löggjafarþing — 15. fundur,  5. júní 2009.

umræða um Icesave.

[15:50]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Við erum enn að ræða þetta risastóra mál sem er dembt hér yfir okkur í dag af ríkisstjórninni. Á okkur í stjórnarandstöðunni er lögð sú skylda að halda trúnað um mál sem við munum að sjálfsögðu að gera. Meðan ætlar ríkisstjórnin að ræða málið í fjölmiðlum án þess að okkar sjónarmið eða önnur sjónarmið komi fram. Þetta er mjög óeðlilegt og það er líka sorglegt að ríkisstjórnin skuli ekki beita sér fyrir því og ráðherrarnir að þetta mál skuli tekið upp og rætt hér í þinginu til þess að við getum fjallað um það með eðlilegum hætti líkt og ríkisstjórnin og ráðherrarnir ætla sér að gera.

Það er algjör lágmarkskrafa að forseti beiti sér fyrir því að þær nefndir sem þetta mál snertir verði kallaðar saman og þær upplýstar um málið. Það er algjör lágmarkskrafa. Þetta er það stórt mál að það er ólíðandi að verið sé að pukrast með það einhvers staðar, hugsanlega að gera eitthvert samkomulag sem þingið er ekki upplýst um á þessum tímapunkti, (Forseti hringir.) mjög viðkvæmum tímapunkti í þjóðfélaginu.