137. löggjafarþing — 15. fundur,  5. júní 2009.

umræða um Icesave.

[16:37]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Það er auðvitað algjörlega ómögulegt að hafa umræðuna í þessum farvegi, að það eigi að ríkja trúnaður og maður veit varla lengur um hvað sá trúnaður á að ríkja. Nú hafa þrír hv. þingmenn farið fram á fund í utanríkismálanefnd, hv. þingmenn Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Bjarni Benediktsson og Birgitta Jónsdóttir, þannig að það er skylt að halda þennan fund. Það er beðið um að þessi fundur verði haldinn hið fyrsta og áður en drög að samningi vegna Icesave-deilunnar verða undirrituð, þ.e. ef það á að undirrita með fyrirvara. (Gripið fram í: Er ekki búið að því?) Ef það er ekki búið. Ekki veit sú er hér stendur neitt um það. (Gripið fram í.)

Alla vega hlýtur að draga til tíðinda þegar ríkisstjórnin sér ástæðu til að ræða við alla stjórnmálaflokka landsins og fresta þingfundi í morgun vegna þessa máls. Auðvitað var að draga til tíðinda í því þá, það getur ekkert annað verið. Það verður að halda fund hið fyrsta í utanríkismálanefnd þannig að við fáum betri upplýsingar um (Forseti hringir.) stöðu mála þegar honum er lokið. Þetta eru allt of stórir hagsmunir (Forseti hringir.) til þess að við förum bara hér inn og slöppum af um helgina. Það gengur ekki, virðulegur forseti, það verður að funda strax í nefndinni.