137. löggjafarþing — 18. fundur,  11. júní 2009.

nauðsynlegar aðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

88. mál
[11:55]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil eins og hv. þingmaður og kollegi minn úr Samfylkingunni, Magnús Orri Schram, þakka hv. þingmanni úr Sjálfstæðisflokknum fyrir þessa tillögu. Þetta er mjög jákvæð nálgun sem hér er lögð fram og ég er mjög sáttur við tóninn bæði í tillögunni og í málflutningi hv. þingmanns. Hann er ekkert að skafa utan af stöðunni eins og hún er núna en hann segir jafnframt: Það þarf að skapa víðtæka sátt um margar erfiðar aðgerðir. Hv. þingmaður segir það sem er mála sannast að okkar bíða ekkert nema mjög óvinsælar aðgerðir.

Hv. þingmaður, sem ég hlustaði líka á í prýðilegu samtali í gær á Stöð 2, virðist vera fallinn frá því sem mér fannst upphaflega vera stefna hans, að vilja fara í flatan niðurskurð bæði á skuldum þeirra sem eiga í erfiðleikum vegna húsnæðisskulda og líka vegna fyrirtækja. Ég ætla ekki að spyrja hann út í það núna en kannski í ræðu minni hér síðar í dag. Hv. þingmaður sagði eðlilega að það skipti mjög miklu máli að halda fyrirtækjunum gangandi, draga úr atvinnuleysi, búa til störf vegna þess að það er e.t.v. þegar allt er skoðað mesta hagsmunamál heimilanna.

Hv. þingmaður reifar það hér í ræðu sinni og í greinargerð með þessari ágætu þingsályktunartillögu að skoði maður fyrirtækin liggi það fyrir að þriðjungur þeirra er að mati sérfræðinga mjög illa staddur og hugsanlega gjaldþrota eins og staðan er núna. Þriðjungur þeirra er þó ekki verr staddur en svo að með samræmdum aðgerðum er hægt að koma þeim verulega til hjálpar. Þriðjungur er kannski í lagi.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Hvað á hann við þegar hann fer yfir sinn ágæta fyrirtækjakafla og talar um að tryggja þurfi jafna meðferð skuldara? Ég misskil kannski stöðuna og hv. þingmann en þarf ekki einmitt að grípa til einhverra sértækra aðgerða sem miðast að þeim fyrirtækjum sem eru verr stödd en hin? Hvað á hv. þingmaður við þegar hann talar um jafna meðferð skuldara undir sínum ágæta fyrirtækjakafla?