137. löggjafarþing — 18. fundur,  11. júní 2009.

nauðsynlegar aðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

88. mál
[12:45]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir málefnalega ræðu. Ég vil líka þakka honum fyrir að viðurkenna að hann hafi verið í stjórn með Sjálfstæðisflokknum í tvö ár. Það er ákveðin viðurkenning. (Utanrrh.: Fyrir hvern?) En ég vil átelja hæstv. ráðherra fyrir að taka upp töfrasprotann og segja: Ef við göngum í Evrópusambandið fáum við evru. Er hæstv. ráðherra ekki kunnugt um að við þurfum að uppfylla Maastricht-skilyrðin og að fjármálaráðuneytið hafi metið það svo að það tæki okkur 30 ár að uppfylla þau skilyrði? Er þetta ekki ábyrgðarlaust tal að lofa þjóðinni evru ef við göngum í Evrópusambandið? Er það ekki ábyrgðarlaust að segja við fólk: Göngum í Evrópusambandið, þá fáum við evru — þegar vitað er að við fáum hana ekki fyrr en eftir 30 ár? Og dugar það eitthvað í dag?