137. löggjafarþing — 18. fundur,  11. júní 2009.

nauðsynlegar aðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

88. mál
[14:06]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Því er fljótsvarað hvort aðgerðin geti orðið tímabundin. Svo gæti ekki orðið, þetta er það víðtæk kerfisbreyting á skattlagningu lífeyrissjóða að það gæti aldrei orðið tímabundið.

Hvað varðar þau rök sem hér var minnst á að sparnaður mundi ekki vaxa jafnhratt og áður, þjóðhagslegur sparnaður. Næsta setning var að það verði sennilega vegið upp með því að skuldir verði greiddar hraðar niður og ekki þurfi að taka jafnmikil lán.

Varðandi sparimerkin, vandamálið í sambandi við rekstur hins opinbera núna er hallinn, það vantar tekjur eða að lækka kostnað, sparimerki yrðu aldrei annað en lán eða fjármögnun til ríkisins.

Hæstv. samgönguráðherra nefndi að það væri eitt nýtt í þingsályktunartillögu okkar. Mig langar til að benda honum á að það sem ég tel vera nýtt og það sem ég tel vera verðmætast í þessari tillögu er að þetta er heildstætt plan sem hefur tilgang. Tilgangurinn er algjörlega skýr og skýrt sett fram hvert verkefnið er. Tilgangurinn er að íslenskt efnahagslíf öðlist trúverðugleika á ný, að komið verði til móts við vanda heimila og fyrirtækja, að bankakerfið verði endurreist og reglugerðir á fjármálamarkaði verði endurskoðaðar.