137. löggjafarþing — 18. fundur,  11. júní 2009.

nauðsynlegar aðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

88. mál
[14:23]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður fór í gegnum söguna og það vildi svo til að Samfylkingin var víst ekkert í ríkisstjórn og hefur ekki verið neitt fyrr en 1. febrúar sl. En það vill nú svo til að hæstv. utanríkisráðherra viðurkenndi áðan að hann hefði verið í ríkisstjórn. Samfylkingin með Sjálfstæðisflokknum, ég vil nú að hv. þingmaður muni það.

En það sem ég vildi gera athugasemd við er það sama og ég gerði athugasemd við hjá hæstv. utanríkisráðherra um. Það er þetta töfrasverð eða töfrasproti eins og Harry Potter, að veifa því að ljósið í göngunum sé ef við göngum í Evrópusambandið og tökum upp evru.

Það vill svo til að fjármálaráðuneytið hefur sagt ef við göngum í Evrópusambandið þá taki það 30 ár að taka upp evru. Það er þeirra mat. Ég reyndar tel að það taki svona 10–15 ár. Þá uppfyllum við loksins Maastricht-skilyrðin vegna þess hvernig Evrópusambandið er búið að fara með Ísland. Þeir kúguðu Ísland í haust, notuðu afl sitt og mátt til að skuldsetja Ísland alveg niður í botn þannig að við megum ekki taka upp evru. Þó að við gengjum inn í Evrópusambandið fyrir hádegi á morgun og fengjum aðild þá tökum við ekki upp evru fyrr en eftir mörg mörg ár, áratugi. Og ég ætla að biðja hv. þingmenn Samfylkingarinnar að hætta að veifa þessu töfrasverði. Hætta að veifa því töfrasverði að ef við göngum inn í Evrópusambandið og tökum upp evru sé allur vandi okkar leystur, meira að segja veðrið á Íslandi batnar á veturna.