137. löggjafarþing — 18. fundur,  11. júní 2009.

nauðsynlegar aðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

88. mál
[16:37]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hlý orð í garð okkar sjálfstæðismanna fyrir þessa tillögugerð. Ég tel að umræðan í dag sýni að við getum einmitt rætt mjög málefnalega um þennan mikla vanda, að við getum hafið okkur upp yfir flokkapólitíkina, við getum rætt tillögurnar út frá efni þeirra, rætt kosti þeirra og galla og þannig miðað verkum okkar áfram. Það er gríðarleg eftirspurn eftir því í samfélaginu að við stjórnmálamenn vinnum með þessum hætti núna, að við tökum höndum saman og horfum á hugmyndirnar en ekki hvaðan þær koma, horfum á kosti þeirra og galla, ræðum þessa hluti öfgalaust og þannig að hagsmunir íslensku þjóðarinnar séu alltaf í fyrirrúmi. Þannig eigum við auðvitað alltaf að vinna en sjaldan hefur verið jafnmikil þörf og nauðsyn og núna að við vinnum með þeim hætti.

Ég fagna enn og aftur ummælum hv. þingmanns og vona að okkur auðnist að vinna vel úr þessum tillögum og þeim tillögum sem ríkisstjórnin mun færa inn í þingið á næstu dögum og vikum. Nauðsynlegt er að slíkur efnahagspakki líti dagsins ljós á allra næstu dögum og vikum, við getum ekki beðið mikið lengur, heimilin í landinu og fyrirtækin kalla eftir því, Seðlabankinn kallar eftir því þannig að hægt sé að lækka hér vexti. Allir þessir hlutir verða að ganga saman og þeir gera það auðvitað best með því að gott samstarf sé á milli ríkisstjórnarinnar og stjórnarandstöðunnar og mér finnst sú umræða sem farið hefur fram í dag gefa mér væntingar til þess að svo sé. Þar með er ekki sagt að af séu allar deilur og umræður í þinginu. Þær eru eðlilegar vegna þess að með slíku köllum við líka fram kosti og galla en það skiptir máli hvernig það er gert. Það skiptir máli að menn láti síðan lokatakmarkið alltaf ráða för en það er að vinna þjóðinni heilt.