137. löggjafarþing — 19. fundur,  15. júní 2009.

vaxtalækkanir og peningastefnunefnd.

[15:25]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég vil bara árétta mikilvægi þess að þessar ráðstafanir þurfa að koma fyrir þingið í þessari viku og helst ganga til þingnefnda fyrir helgi. Það er ekki meiri tími til stefnu vegna þess að stór hluti aðgerðanna á að taka gildi 1. júlí nk. og gilda fyrir allan seinni hluta ársins.

Það hefur að sjálfsögðu tekið tíma að vinna þetta í því breiða samráði sem gert hefur verið, samstarfi og samráði. Það hefur hins vegar ótvíræða kosti og skiptir miklu máli að aðilar vinnumarkaðarins, sveitarfélögin og fleiri aðilar hafa komið að borðinu, hafa komið sínum sjónarmiðum á framfæri og haft skoðanir á því sem þarna stendur til að gera sem og stjórnarandstaðan.

Varðandi Seðlabankann og peningastefnunefndina get ég að sjálfsögðu ekki svarað fyrir hana, hvort hún tekur það til íhugunar, sem vissulega hefur verið rætt opinberlega svo ekki sé sagt beinlínis beint til hennar, að taka til íhugunar aukavaxtaákvörðunardag. Það er hugmyndin (Forseti hringir.) sem liggur til grundvallar því að niðurstaða í þessum efnum geti legið fyrir fyrir 30. júní sem er síðasti dagur sem Samtök atvinnulífsins hafa til þess að gera upp hug sinn varðandi áframhaldandi gildi kjarasamninga.