137. löggjafarþing — 20. fundur,  16. júní 2009.

diplómanám fyrir fólk með þroskahömlun.

74. mál
[17:24]
Horfa

menntamálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmundi Erni Rúnarssyni sérstaklega fyrir þessa fyrirspurn um diplómanám fólks með þroskahömlun. Forsagan er í stuttu máli sú, eins og hv. þingmaður kom inn á, hvað varðar aðkomu menntamálaráðuneytisins, að árið 2007 heimilaði þáverandi menntamálaráðherra, hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Kennaraháskóla Íslands, sem núna er menntavísindasvið Háskóla Íslands, að bjóða upp á starfstengt diplómanám fyrir fólk með þroskahömlun. Þetta nám var hugsað sem þriggja ára tilraunaverkefni og sumarið 2009 eru tvö ár liðin af þessu tímabili.

Í vor var gerð úttekt á árangri námsins og liggur hún nú fyrir. Hún er til skoðunar í ráðuneytinu og um leið hefur menntavísindasvið átt í viðræðum við ráðuneytið um framhald námsins. Að mínu viti er um mjög mikilvægt framtak að ræða og ég mun skoða leiðir í samráði við Háskóla Íslands til að tryggja að framhald geti orðið á þessu námi sem er að þróast. Þetta er merkilegt framtak og þróunin hefur verið hröð á þeim stutta tíma sem námið hefur staðið. Ég mun í framhaldinu af þessari úttekt, þegar hún hefur verið rædd frekar í mínu ráðuneyti, skoða leiðir í samráði við HÍ til þess að áfram verið unnt að bjóða upp á þetta nám.