137. löggjafarþing — 22. fundur,  18. júní 2009.

breyting á ýmsum lögum vegna tilfærslu verkefna innan Stjórnarráðsins.

89. mál
[15:06]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil kannski umorða spurningu mína og spyr því hæstv. forsætisráðherra hvort ekki hafi verið ástæða til að nýta ferðina, ef svo má segja, þegar verið er að leggja frumvarp um breytingu á Stjórnarráðinu fram með þessum hætti til þess að ná fram einhverjum markmiðum um aðhald og sparnað. Í kostnaðarumsögn fjármálaráðuneytisins er aðeins tekið fram að ekki sé gert ráð fyrir kostnaðaraukningu af þessum breytingum. Ekki er gert ráð fyrir sparnaði af þessum breytingum. Raunar má velta fyrir sér hvort það stenst að ekki komi til kostnaðaraukningar eins og yfirleitt gerist alla vega fyrst í stað þegar farið er í skipulagsbreytingar af þessu tagi.

En nóg um það. Ég vil taka það fram að mér finnst engin ástæða til að agnúast út í það að farið sé í endurskoðun á verkefnum í Stjórnarráðinu, við stóðum að því fyrir tæpum tveimur árum og ég held að enginn sjái fyrir sér að ástæða sé til að fara til baka. En ég spyr hæstv. forsætisráðherra: Af hverju var ekki ákveðið að nýta ferðina (Forseti hringir.) til þess að ná fram einhverri hagræðingu og einhverjum sparnaði þegar á annað borð var verið að leggja fram frumvarp um breytingar á Stjórnarráði (Forseti hringir.) Íslands?