137. löggjafarþing — 22. fundur,  18. júní 2009.

kjararáð o.fl.

114. mál
[20:54]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það má deila um það hversu þægilegir stólarnir eru um þessar mundir. Minn er lítið slitinn og rúmið enn þá minna. Ég veit ekki betur en að á dagskrá í dag hafi einmitt verið frumvarp til laga um breytingu á Stjórnarráðinu þar sem verið er að leggja lagagrunninn að þessum breytingum á ýmsan hátt.

Varðandi stofnun efnahags- og viðskiptaráðuneytisins þá er það tiltölulega einföld aðgerð að ég tel en mikilvæg engu að síður, því að þar verða sameinuð á einn stað helstu stjórntæki efnahagsmálanna önnur en ríkisfjármálin. Gert er ráð fyrir því að sú breyting, ef ég veit rétt, nafnbreytingin að minnsta kosti, geti orðið með haustinu.

Það er nokkuð viðameira að stofna atvinnuvegaráðuneyti og umhverfis- og auðlindaráðuneyti. Það er mun meiri færsla að hluta en sú einfalda aðgerð að færa efnahagsskrifstofuna úr forsætisráðuneytinu yfir í viðskiptaráðuneytið og hluta af efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins og þjóðhagsspá og annað því um líkt.

Nákvæm tímasetning þessara breytinga verður náttúrlega unnin samhliða því að frumvarpið verði gert að lögum en gert er ráð fyrir því að þessi hluti gerist á fyrri hluta tímabilsins allir nema þá það sem talað er um að gerist í lok kjörtímabilsins sem er enn þá víðtækari sameining málefna í innanríkisráðuneyti. En sú fækkun ráðuneyta sem að er stefnt áður er ráðgerð á fyrri hluta kjörtímabilsins.