137. löggjafarþing — 22. fundur,  18. júní 2009.

hvalir.

112. mál
[23:02]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Það vill þannig til með það mál sem við ræðum hér að það er nokkur sérstakt sjónarhorn sem felst í 1. gr. en það snýr að síðustu málsgrein, með leyfi forseta:

„Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.“

Hv. þm. Guðbjartur Hannesson gerði þetta að nokkru umtalsefni í ræðu sinni fyrr í kvöld og mig langar aðeins að snerta á þessum þætti því að hér er mjög áhugavert úrlausnarefni sem snýr að einu af grundvallaratriðum í stjórnmálum og efnahagsmálum en það er hvernig eignarréttur verður til á náttúruauðlindum.

Í þessu tilviki er til löng nýtingarsaga einkaaðila í hvalveiðum við Íslandsstrendur, bæði innlendra aðila og erlendra. Síðan gerist það að fyrir tilstuðlan hins opinbera á grundvelli vísindalegra niðurstaðna er ákveðið að hætta hvalveiðum fyrir einum 24 árum síðan. Svo líður og bíður og við ákváðum að hefja hvalveiðar aftur. Þá kemur spurningin: Hvernig á að útdeila slíkum réttindum? Það er ekki einfalt mál. Ein rökin væru þau að þeir sem stundað hefðu slíkar veiðar áður, lagt fé sitt í að þróa veiðitækni, tekið áhættu af slíku með fjármuni sína, líf og limi, þeir aðilar ættu að sitja fyrir og fá útdeilt í einhverju hlutfalli möguleikanum á því að nýta auðlindina. Eða eins og mér sýnist vera niðurstaðan varðandi þetta mál af hálfu tillöguflytjanda að þau ár sem liðin eru frá því að veiðum lauk séu það langur tími að engin slík réttindi séu til staðar og það sé eðlilegt að hið opinbera kasti eign sinni á þessa auðlind.

Við höfum áður rætt nokkuð, núna síðast í vor, um hugtakið þjóðareign og þá réttaróvissu sem er um það hugtak. Hugtakið „sameign íslensku þjóðarinnar“ fellur þar undir og í mínum huga er um að ræða eign hins opinbera, eign ríkisins. Það er ekkert annað sem um er að ræða enda er það svo þegar menn skoða frumvarpið að það gjald sem tekið er vegna þessara veiða, bæði veiðigjald og líka sérstakt gjald sem lagt er á hvert kíló af veiddum hval rennur að sjálfsögðu í ríkissjóð enda eðlilegt þegar menn nálgast það út frá þeirri hugsun að það sé ríkið sem eigi þessi réttindi. Þótt ég viti að það sé skrautlegra og skemmtilegra að tala um sameign íslensku þjóðarinnar er miklu nær sanni og réttara að segja að þetta sé eign ríkisins. En gott og vel.

Þetta er áhugavert mál. Ég ætla ekki að skera úr um hvort 24 ára tími sé það langur að hægt sé að líta svo á að réttindi manna séu fyrnd. Það er eitthvert mat og ég reikna með að menn munu ræða það í hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd þegar málið kemur þangað inn. Ég vil þó taka undir m.a. með hv. þm. Guðbjarti Hannessyni og fleirum — hv. þm. Jón Gunnarsson nefndi það einnig í sinni ágætu ræðu — að í 8. gr., þar sem kveðið er á um þann tíma sem leyfi eru gefin út, þ.e. til eins árs í senn, að það er allt of mikil óvissa uppi til að menn geti réttlætt það að fjárfesta í þessari grein. Eins árs leyfi er bara of stuttur tími. Nú veit ég að hæstv. sjávarútvegsráðherra er mikill áhugamaður um hvalveiðar og hvaladráp og ég treysti því að hann vilji byggja upp og skapa grunn fyrir nýja atvinnugrein eða endurreisn þessarar atvinnugreinar. Þess vegna er mikið atriði að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra endurskoði þennan þátt vegna þess að það er ljóst þegar menn lesa textann í 6. gr. frumvarpsins og eins ef menn fara yfir í athugasemdirnar að ráðherrann hefur með reglugerðarvaldi alveg gríðarlega mikið vald þegar kemur að því að ákveða hvernig úthluta á þessum veiðiheimildum. Með leyfi forseta vil ég fá að grípa niður í athugasemdirnar á bls. 5 þar sem eftirfarandi kemur fram:

„Heimilt væri honum að skipta leyfilegum fjölda dýra eða hluta þeirra á milli skipa og við það taka mið af t.d. reynslu þeirra eða stærð. Hann gæti einnig ákveðið að veiðar skyldu frjálsar uns tiltekinn heildarfjöldi dýra væri veiddur eða ákveðið að takmarkanir yrðu á fjölda veiddra hvala á tilteknum tíma.“

Þetta er það breytt og það er svo mikið vald sem ráðherrann hefur að þrátt fyrir að við höfum ágætan hæstv. sjávarútvegsráðherra er erfitt að spá því hvað honum dettur í hug á milli ára þegar kemur að því að úthluta þessum leyfum. Það er bara einn aðili sem ég sé í hendi mér að geti lifað við þessar aðstæður, það er sá aðili sem hefur lengi átt skip, haldið þeim við, hefur þau tilbúin. Sá aðili getur auðvitað unnið í þessu umhverfi af því að hann hefur hvort eð er fyrir löngu tekið þá ákvörðun að halda þessum skipum sínum tilbúnum til hvalveiða og virðist vera tilbúinn til að bíða lengi eftir að fá slík tækifæri en ég sé ekki að aðrir mundu leggja út í slíkar fjárfestingar. Ég á erfitt með að sjá það í það minnsta á grunni þessa frumvarps, óvissan er einfaldlega allt of mikil. Ofan á allt annað má nefna að í síðustu mgr. 6. gr. er kveðið á um að ráðherrann geti ákveðið að heimila engar hvalveiðar ef hann telur að þær gangi gegn heildarhagsmunum þjóðarinnar þrátt fyrir að Hafrannsóknastofnun hafi gefið leyfi til þess eða telji óhætt að veiða hval. Saman tekið er óvissan því um þetta svo mikil að ég tel að þarna þurfi að kveða svolítið fastar á í lögunum þannig að menn hafi fastara land undir fótum.

Ég ítreka að þetta eru mjög áhugaverð úrlausnarefni og ég hvet hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd til að kalla til sín lögfræðinga og lögspekinga sem margir hverjir hafa sérhæft sig í réttindum og því lagaumhverfi sem er um nýtingu á náttúruauðlindum, sérstaklega hafsins, til þess að velta fyrir þeim þætti sem ég hóf mál mitt á sem er hvernig fyrningu slíkra réttinda er háttað, hafi þau verið til staðar, og hvort 24–25 ár séu eðlilegur tími til að ríkið geti slegið eign sinni á slíkt eða hvort jafnvel megi líta svo á að það sé enginn eigandi eftir þann tíma sem liðið hefur og þar með hafi ríkið slegið eign sinni á auðlindina.