137. löggjafarþing — 23. fundur,  19. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[17:44]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þau viðbrögð sem þó hafa komið við bandormi ríkisstjórnarinnar frá aðilum vinnumarkaðarins, ég get nefnt orð Gylfa Arnbjörnssonar hjá ASÍ, benda ekki til þess að menn hafi mikla trú á því að þetta dugi til að hreyfa við peningamálastefnu Seðlabanka Íslands. Þar kemur fram að þessar aðgerðir séu mjög svo takmarkaðar og hólfaðar niður og það skorti enn þá mikilvægu heildarmynd sem við þurfum að hafa í ríkisfjármálum. Við gerum okkur enga grein fyrir því hvaða áform ríkisstjórnin hefur í framhaldinu, hvernig hún hyggst taka á næstu árum þannig að ég gat ekki betur skilið en að það sé skoðun margra á vinnumarkaði að þarna sé ekki nóg að gert. Þess vegna ítreka ég spurningu mína til hv. þingmanns: Hvað telur hún að þurfi að gera í framhaldinu í sölum Alþingis til að hnika málunum í rétta átt ef vextir verða ekki lækkaðir 2. júlí?