137. löggjafarþing — 23. fundur,  19. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[18:35]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi Alþjóðagjaldeyrissjóðinn held ég að hafa verði í huga að saga hans og orðstír eru náttúrlega mjög mörkuð af því hvernig hann stóð að málum á sjöunda, áttunda og kannski níunda áratugnum í þróunarríkjum og eitthvað lengur, t.d. í sumum ríkjum Suður- og Mið-Ameríku. Hann hefur ekki haft mikið að gera síðustu árin þangað til erfiðleikarnir gengu í garð sem núna eru uppi. Það verður líka að hafa í huga að samstarf okkar við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn er milli þróaðs velmegunarríkis og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Eigum við þá ekki að ætla og hafa trú á því sjálf að við (Gripið fram í.) getum staðið þannig að málum að við höldum vel á okkar hlut í þeim samskiptum? Ég trúi því a.m.k. að það skipti máli hver er á hinum endanum. Mín reynsla af samskiptum við þennan ágæta sjóð er m.a. sú að það er hægt að láta hann taka rökum og hann getur fallist á ýmsar breytingar sem við teljum að þurfi að gera á þessari samstarfsáætlun, hún er dínamísk í þeim skilningi. Ég get nefnt þar t.d. til sannindamerkis að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn féllst á ýmsar þær félagslegu ráðstafanir sem minnihlutaríkisstjórnin greip til á tímabilinu febrúar til apríl, svo sem eins og hækkun vaxtabóta, ráðstafanir vegna greiðsluaðlögunar heimilanna og fleira í þeim dúr.

Að sjálfsögðu er það mikilvægt að rannsókn og upplýsing allra þeirra atburða sem hér hafa orðið gangi sinn veg, auðvitað er óþreyja ríkjandi víða gagnvart því að menn sjái hlutina gerast og sú tilfinning manna að þar (Gripið fram í.) hafi ýmislegt farið úrskeiðis sem taka þurfi á, að menn sjái þess stað í beinum aðgerðum. Það er nú loksins þannig að allstór hópur manna hefur stöðu grunaðra og ýmsar rannsóknir, húsleitir o.fl. hafa verið framkvæmdar. Eigum við ekki að hafa trú á því að réttarríkið virki? Þannig ætlum við væntanlega að láta þetta vera, að það verði á forsendum réttarríkisins (Forseti hringir.) sem menn verði rannsakaðir og dregnir til ábyrgðar fyrir gjörðir sínar.