137. löggjafarþing — 23. fundur,  19. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[19:00]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að ég hafi komið inn á þetta í dag í svari við ræðu að það liggja fyrir sundurliðaðar tillögur þar sem þessum aðhaldskröfum hefur verið skipt niður á ráðuneyti. Þar er í grófum dráttum skipt á þeirri grundvallarreglu að á stjórnsýslu almennt komi 2% aðhaldskrafa miðað við veltu ársins á öll ráðuneyti, á menntaþáttinn 1,6% og á velferðarþjónustuna 1%. Þessu var útdeilt þannig að á beina rekstrarliði kæmi 1,5% almennt, 1,2% á menntamálaráðuneytið og 0,75% á velferðarmálin. Síðan áttu menn að skila í viðbót aðhaldi á öðrum sviðum svo sem í tilfærslum og stofnkostnaði og samtals ná þeim markmiðum sem ég hér áður nefndi. Sá listi er til og hann hefur verið afgreiddur í ríkisstjórn og í þingflokkum stjórnarflokkanna og ég geri ráð fyrir því að þessi gögn öll geti gengið til hv. þingnefnda þegar þær fjalla um málið.

Þetta eru þegar teknar pólitískar ákvarðanir um það hvernig þessi sparnaður skuli koma niður á árinu og ramminn fyrir árið 2010 í raun og veru sömuleiðis afgreiddur. Eitthvað af þessum gögnum mun líta betur dagsins ljós þegar skýrslan um heildaráætlanirnar kemur hér fram en að öðru leyti geta þessi gögn að sjálfsögðu gengið til viðkomandi þingnefnda.