137. löggjafarþing — 24. fundur,  22. júní 2009.

vandi íbúðakaupenda með myntkörfulán.

[15:20]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F):

Frú forseti. Þetta svar olli mér vonbrigðum. Við verðum að setja þetta í tölulegt samhengi. Fjölskylda sem skuldaði 30 milljónir í myntkörfuláni skuldar núna 60 eða meira. Það er verulegt högg fyrir fjölskyldu.

Við getum tekið annað dæmi fyrst ég er byrjaður: Fjölskylda sem skuldaði 50 milljónir skuldar núna 100 eða upp úr. Það hlýtur að vera „katastrófa“ fyrir heimili í landinu sem eru í þessari stöðu. Mér finnst það áhyggjuefni, vegna þess að við sjáum ekki fram á styrkingu krónunnar samkvæmt öllum hagspám í bráð, ef hæstv. viðskiptaráðherra er ekki reiðubúinn að íhuga úrræði eins og t.d. að lántakendum í þessari stöðu sé gefinn kostur á því að breyta lánum sínum í verðtryggð íslensk lán miðað við lántökudag. Þetta er tillaga sem m.a. Hagsmunasamtök heimilanna hafa verið með. Er hæstv. viðskiptaráðherra ekki reiðubúinn að íhuga lausn af þessu tagi?