137. löggjafarþing — 24. fundur,  22. júní 2009.

ráðgjafarstofa fyrirtækja í greiðsluörðugleikum.

116. mál
[18:34]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég óska flutningsmanni, Eygló Harðardóttur, til hamingju með þessa tillögu. Ég tel að þetta sé mjög jákvætt skref og hún vekur athygli á þörfu verkefni fyrir okkur stjórnmálamennina að íhuga, á litlum fyrirtækjum, einyrkjum, sem þurfa sérstakrar aðstoðar við. Ég er mjög hrifinn af þessari hugmynd og þeim anda sem yfir henni býr og tel að hún ætti að fá góðan farveg í efnahags- og skattanefnd. Við ættum þarna að horfa sterkt til samstarfs við Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna og nýsköpunarmiðstöðva um allt land eins og greint er frá í greinargerðinni. Ég er viss um að stór hópur fólks sem hefur verið með fyrirtæki í góðum rekstri á undanförnum árum horfir fram á mikla erfiðleika og veit kannski ekki alveg hvernig kerfið virkar. Ef við getum búið til miðstöð sem getur safnað saman upplýsingum fyrir þá sem eru í vandræðum og miðlað til þeirra þá er það hið besta mál.