137. löggjafarþing — 29. fundur,  29. júní 2009.

stóriðjuframkvæmdir.

[15:19]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er alveg rétt að í nýrri skýrslu OECD er Ísland flokkað með þrem, fjórum öðrum OECD-ríkjum sem eru í nokkurri sérstöðu vegna mikilla skulda ríkissjóða og er þar af leiðandi ekki talið að þau séu fær um að beita með sama hætti hvetjandi aðgerðum og ýmis önnur lönd geta mögulega gert. Það er þó athyglisvert að OECD metur líkur á samdrætti í þjóðartekjum á þessu ári mun minni en innlendar spár hafa hingað til gert ráð fyrir eða um 7% í staðinn fyrir yfir 10%. Eigum við þá ekki að vona að í þessu tilviki hafi OECD rétt fyrir sér?

Það er reyndar rétt að upplýsa að síðan OECD-skýrslan kom fram hafa menn verið að birta ný gögn sem benda til þess að 10 af 20 svonefndra G-20 ríkja verði innan þriggja til fjögurra ára komin með svipaðar eða meiri skuldir en Ísland. Það er ástæða til að ætla, miðað við þessar spár, að Ísland verði á nýjan leik komið um miðbik OECD-landanna innan fjögurra til fimm ára. Þó að það sé lítil huggun fyrir okkur að það séu miklir erfiðleikar víðar en hér segir þetta þó þá sögu að þrátt fyrir hið mikla áfall sem hér hefur orðið er ástæða til að ætla að við verðum á svipuðu róli og fjöldamörg önnur sambærileg lönd innan fárra ára hvað þetta snertir.

OECD gerir ráð fyrir í spá sinni, á grundvelli gagna sem það aflar auðvitað héðan, nákvæmlega sömu stórframkvæmdum og eru í þjóðhagsáætlun fyrir þetta ár. Ríkisstjórnin leggur þar til viðbótar áherslu á fjárfestingar í ýmsum nýiðnaðargreinum, litlum og meðalstórum iðnfyrirtækjum, og jafnvel að það gæti að einhverju leyti komið í stað annarra stóriðjuáforma sem eru í mikilli óvissu eins og kunnugt er og ekki eru t.d. tekin með í þjóðhagsspá.

Ég verð þó að segja í ljósi alls þessa málflutnings að það er morgunljóst í mínum huga að það verður viðgangur hins almenna íslenska atvinnulífs sem mestu mun skipta um það hvernig okkur gengur að vinna okkur út úr kreppunni. (Forseti hringir.) Það verður virðisauki og verðmætasköpun í okkar almenna atvinnulífi sem þarf að koma til umfram allt annað.