137. löggjafarþing — 29. fundur,  29. júní 2009.

heimild ríkissjóðs Íslands til viðbótarlántöku á árinu 2009.

133. mál
[16:27]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að þetta eru háar tölur en það verður að hafa í huga þegar þær eru lagðar saman að þær eru eðlisólíkar. Það er að sjálfsögðu munur á skuldum hvar engar eignir standa á móti og menn borga og hafa ekki tekjur til að mæta og hlutum eins og þeim að byggja upp gjaldeyrisforða og eiga hann. Gjaldeyrisforðinn verður síðan ávaxtaður þannig að það er eingöngu einhver vaxtamunur sem ríkið ber í kostnað. Það sama má segja um endurfjármögnun bankanna. Þar kemur eign á móti í bönkunum, ríkið á þá bankana og ef vel gengur getur sú eign orðið jafnvel verðmætari með árunum og hægt er að losa hana ef svo ber undir.

Varðandi skuldastöðu ríkisins bendi ég á skýrsluna sem liggur fyrir þinginu, sem verður að ég best veit rædd á morgun, og töflu aftast í skýrslunni. Þar kemur fram að það er álitið að heildarskuldir ríkissjóðs verði um 125,5 eða 125,2 af hundraði af vergri landsframleiðslu á tveggja ára tímabili, þ.e. árinu í ár og næsta ári, en fari síðan aftur að lækka. Þetta er mjög há tala en engu að síður er það þó þannig að það eru allmörg OECD-ríki með meiri skuldir en þetta. Gangi það eftir að þessi tala geti farið lækkandi eins og áætlanir gera ráð fyrir mundi staða Íslands í lok þessa tímabils, 2013, verða alveg þokkaleg, einkum þegar horft er til hreinna skulda ríkissjóðs og við höfum eignirnar á móti. Þegar upp er staðið er það kannski hreina skuldastaðan og hrein staða ríkissjóðs að teknu tilliti til eigna sem mestu máli skiptir. Það er ástæða til að ætla að hún þurfi ekki að verða óásættanleg þó að hrein staða ríkissjóðs með tilliti til eigna fari á tímabili upp fyrir 20% sem er auðvitað mikið en þó alls ekki óviðráðanlegt. Stutta svarið við löngu spurningunni er: Nei, Ísland er ekki gjaldþrota, við ætlum ekki að láta (Forseti hringir.) það verða gjaldþrota. Það á að geta ráðið við skuldir sínar en það verður erfitt.