137. löggjafarþing — 29. fundur,  29. júní 2009.

heimild ríkissjóðs Íslands til viðbótarlántöku á árinu 2009.

133. mál
[18:15]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er ánægjulegt að hæstv. fjármálaráðherra skuli hafa komið aftur til umræðunnar. Reyndar sakna ég þess nokkuð að hæstv. ráðherra skyldi ekki hafa svarað þeim fyrirspurnum sem við þingmenn Framsóknarflokksins höfum lagt fram í þessari umræðu. Reyndar sagði hæstv. ráðherra mjög eðlilegan hlut áðan sem maður er orðin vanur að hlusta á. Hann tilkynnti okkur það hér að við mundum heyra það eftir að hann væri búinn að gefa út fréttatilkynningu á miðvikudaginn hver kjörin væru á þessum lánum frá Norðurlöndunum. Hæstv. ráðherrar ætla því að halda áfram að meðhöndla þingið líkt og verið hefur. Við munum heyra hlutina eins og aðrir landsmenn í fjölmiðlum og engin kynning mun áður eiga sér stað í neinni af þingnefndum. Þó er það þannig að það er Alþingi Íslendinga sem á að staðfesta þennan gjörning á endanum.

Ég spurði líka um greiðsluyfirlit og hvort búið væri að gera það. Hæstv. ráðherra benti mér á að lesa skýrslu sem hann ætlar að flytja sem ber yfirskriftina Stöðugleiki, velferð, vinna. Ég spurði áðan hvort þessi yfirskrift skýrslunnar væri einhver brandari því ég hef ekki orðið var við að mikil velferð væri í því sem hæstv. ríkisstjórn er að boða í efnahagsmálum enda er þröngt í búi og þess vegna finnst mér þessi yfirskrift skjóta skökku við. Hæstv. ráðherra benti mér á yfirlit yfir skuldir ríkissjóðs sem eru samkvæmt því, áætlun 2009, um 1.800 milljarðar kr. En þar kemur reyndar fram að lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, Noregi, til Seðlabankans eru ekki talin með skuldum ríkissjóðs. En það eru nú bara heilu skuldbindingarnar. Við erum að óska eftir því að fá eitthvert yfirlit yfir þetta og yfir greiðslurnar sem af (Forseti hringir.) hvoru tveggja þessu samkomulagi mun hljóta. En því miður höfum við ekki fengið svör frá hæstv. ráðherra í þessari umræðu um það.