137. löggjafarþing — 29. fundur,  29. júní 2009.

ríkisútvarpið ohf.

134. mál
[19:20]
Horfa

menntamálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birki Jóni Jónssyni hans yfirferð yfir málið. Mig langar að nefna varðandi það hvort þessi dreifing á gjaldi leiði til aukins vaxtakostnaðar fyrir Ríkisútvarpið að ég reikna með því að hv. menntamálanefnd muni ræða það í umfjöllun sinni um málið. Við töldum ekki að þetta ætti að hafa verulega áhrif á það en hins vegar vitum við auðvitað ekki hvernig heimturnar verða af útvarpsgjaldinu en við vonumst til að þær gæti orðið betri með þessari dreifingu fremur en að þetta leggist allt á einn gjalddaga.

Þegar kemur að greiðsluseðlinum er mér líkt farið og hv. þingmanni að ég taldi að það gæti ekki verið mikið mál að dreifa þessu en þetta tengist hinni almennu skattheimtu og ég reikna með því að hv. menntamálanefnd muni líka ræða við skattyfirvöld almennt um innheimtuaðferðir þar en ég held að skoða þurfi heildstætt hvernig það er innheimt og hvort hægt er að gera þetta með einhverjum ódýrari hætti og án þess t.d. að senda út greiðsluseðla. Þar komum við að skattyfirvöldum. Þessi kostnaður mundi í raun og veru leggjast á þau eða Fjársýslu ríkisins, þær 9 millj. kr. sem þarna eru nefndar.

Þegar kemur síðan almennt að þessum ákvörðunum held ég að það sé rétt hjá hv. þingmanni að það er eðlilegt að skoða betur samskipti fjárlaganefndar og hins vegar ráðherra. Nú á þessi ákvörðun sem má segja að ég taki sem handhafi hlutabréfsins í Rúv ohf. auðvitað eftir að koma til kasta fjárlaganefndar í fjáraukalögum sem verða lögð fyrir þingið. Spurningin er hvort þessi umræða ætti að fara fram fyrr, þ.e. að ræða þetta í fjárlaganefnd áður en þetta kemur inn á fjáraukalög, sem það á auðvitað eftir að gera, og þar held ég að við þurfum að skoða það heildstætt. Þetta tengist bæði almennt vinnubrögðum fjárlaganefndar og ráðherra og samspili þeirra en líka hvernig við meðhöndlum opinber hlutafélög sem eru tiltölulega nýtt form og kannski erfiðara að átta sig á hvernig maður fer með fjármuni þar en t.d. þegar átt er við venjulega ríkisstofnun (Forseti hringir.) þar sem aðrar leikreglur gilda. Ég tek því undir með hv. þingmanni að þetta má skoða mun betur.