137. löggjafarþing — 30. fundur,  30. júní 2009.

skýrsla fjármálaráðherra um áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum 2009--2013.

126. mál
[14:45]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú kannast maður við kauða. Þarna kom hv. þingmaður Vinstri grænna, núverandi hæstv. ráðherra í ljós og fór að tala um skattstefnu Sjálfstæðisflokksins í miklum pirringi.

Ég kem upp í andsvar vegna þess að í þessari annars fínu skýrslu — það er fínt að fá svona plagg fram — er talað um að stjórnvöld muni leggja alla áherslu á að skapa atvinnulífinu þau skilyrði sem nauðsynleg eru til að skapa hér og verja og styðja atvinnustarfsemina í landinu og það er talað um að við þurfum að hafa trausta tekjustofna sem forsendu atvinnulífs. Á sama tíma og þetta er sett fram er verið að leggja hér á — það var samþykkt með lögum á mánudaginn var — afdráttarskatta á fjármagnstekjur þar sem verið er að skapa flækjustig sem veldur því að íslensk fyrirtæki á erlendum fjármagnsmörkuðum (Forseti hringir.) lenda í miklum vandræðum. Þessi skattlagning er gerð þvert á (Forseti hringir.) ráðleggingar allra sérfræðinga og mun ekki gera neitt annað en að draga úr (Forseti hringir.) þrótti atvinnulífsins. Ég klára (Forseti hringir.) í næsta andsvari hugsunina.