137. löggjafarþing — 30. fundur,  30. júní 2009.

skýrsla fjármálaráðherra um áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum 2009--2013.

126. mál
[15:18]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er hárrétt hjá hæstv. fjármálaráðherra að bændur hafa oft og tíðum verið á undan sinni samtíð og voru það í þessu tilfelli líka. Við erum sammála um það úr því ágæta kjördæmi sem við komum úr báðir tveir.

Varðandi það með hvaða hætti aldraðir og öryrkjar brugðust við þá er það í fyllsta máta skiljanlegt, ekki síst í ljósi þess hvernig umræðan um forgangsröðina hefur verið varðandi niðurskurðinn í tilfærslunni. Ég fullyrði að það hefði verið leikur einn að ná með sama hætti 1.800–2.000 milljörðum í lækkun þess hlutar til að netta út og komast hjá því að ganga inn í þennan veikasta hóp í þeim bótaflokki sem þarna liggur fyrir.

Það liggur líka fyrir að það eru fjölmörg tækifæri í rekstri nú þegar eins og kemur ágætlega fram í fjölmiðlum í dag, á forsíðu Fréttablaðsins þar sem vitnað er til þess hvernig menn eru að „svindla“ á bótagreiðslum úr Atvinnuleysistryggingasjóði, í hálfu starfi með 500 þús. kr. tekjur og 120 þús. kr. í bætur frá Atvinnuleysistryggingasjóði. Ég fullyrði það að ef menn fara ofan í það er með sama hætti hægt að ganga líka inn í Fæðingarorlofssjóðinn og sjá þar og draga upp dæmið þar sem menn eru að spila á það regluverk sem þar er um að tefla. Ég nefni þetta vegna þess að inn í Fæðingarorlofssjóð eru nú þegar komnir 11 milljarðar, upphæð sem hefur stórhækkað á síðustu árum og ég tel alveg fyllilega ástæðu til að fara ofan í þann vöxt útgjalda í ljósi þeirrar kröfu sem gerð er um aðhald í rekstri ríkisins. Þetta er ákveðinn munaður sem við gátum leyft okkur en getum ekki gert í dag, því miður. Og ég tel ekkert að því að skoða þetta frekar en orðið er. Þarna er fullt af færum. En þess í stað fóru menn aðrar leiðir og ganga frekar inn á bæturnar til þessara 42 þúsund lífeyrisþega í landinu sem höfðu vissulega náð áföngum í réttindabaráttu sinni en ekki það miklum að það réttlætti að þeir yrðu fyrst skornir niður við trog.