137. löggjafarþing — 30. fundur,  30. júní 2009.

skýrsla fjármálaráðherra um áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum 2009--2013.

126. mál
[15:40]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kemur fram í skýrslunni eða má lesa út úr skýrslunni að verulegar breytingar gætu orðið á stöðu opinberra starfsmanna. Einhvers staðar segir að jafnvel verði menn að horfast í augu við verulega fækkun opinberra starfsmanna. Mig langar af því tilefni til að spyrja hv. þm. Guðbjart Hannesson aðeins út í hans skoðanir á því.

Það kemur fram á blaðsíðu 39 í leiðarljósum aðhaldsaðgerðanna að til standi að fella laun forstjóra, æðstu yfirmanna fyrirtækja og stofnana og hlutafélaga sem nú eru í eigu ríkisins undir úrskurðarvald kjararáðs. Ef til stendur að fella alla þá starfsmenn sem nú eru komnir á forræði ríkisins í þeim fyrirtækjum og bönkum sem hafa verið teknir yfir er um að ræða verulega fjölgun opinberra starfsmanna og fróðlegt er að vita hvernig menn ætla að bregðast við því.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvernig hann sjái fyrir sér að hægt sé að lækka laun opinberra starfsmanna eins og boðað er að verði gert í þessari skýrslu, hvaða leiðir hann sjái færar í því. Eins þá í framhaldi af því hvort við getum átt von á því að stofnanir, opinberar stofnanir verði lagðar niður og þar með störf opinberra starfsmanna og hvernig menn í raun ætla að fara í þetta stóra verkefni vegna þess að það er kunnara en frá þurfi að segja að launakostnaður ríkisins er einn meginútgjaldaþátturinn þegar kemur að rekstri ríkisins.