137. löggjafarþing — 30. fundur,  30. júní 2009.

skýrsla fjármálaráðherra um áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum 2009--2013.

126. mál
[16:48]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar að spyrja hv. þm. Ásmund Einar Daðason að því sem stendur á blaðsíðu 23 í þessu ágæta plaggi sem hæstv. fjármálaráðherra lagði fram þar sem hann greinir frá því að hlutfall tekjuskatts af heildartekjum hefur hækkað frá 1993 fram til dagsins í dag. Það stendur þar, með leyfi forseta:

„Það er athyglisvert að þetta hlutfall hefur hækkað þrátt fyrir að skatthlutföll hafi verið lækkuð og sérstakur hátekjuskattur verið lagður af.“

Hvernig telur hv. þingmaður að þetta færi saman með því sem stendur síðan á blaðsíðu 39 þegar verið er að tala um aukna skattheimtu og jafnframt að lækka laun? Og hvernig verður aukin skattheimta að tekjum ef við lækkum launin? Og hvort heldur hv. þm. Ásmundur Einar Daðason að meiri eftirspurn sé eftir vel menntuðum læknum, verkfræðingum, lögfræðingum og hagfræðingum eða íslenskum stjórnmálamönnum?