137. löggjafarþing — 30. fundur,  30. júní 2009.

skýrsla fjármálaráðherra um áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum 2009--2013.

126. mál
[16:50]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég heyri að hv. þingmaður deilir ekki áhyggjum mínum af því að með lækkun launa í ríkiskerfinu eins og verið er að tala um, þ.e. að enginn eigi að hafa hærri laun en forsætisráðherra, sé hætta á því að við missum úr landi vel menntaða lækna, verkfræðinga, hagfræðinga, lögfræðinga og fleiri og þá eru ekki til þeir skattgreiðendur sem ríkisstjórnin núverandi ætlar sér að skattleggja. Í ljósi þessa spurði ég hv. þingmann hvort hann teldi að það væri virkilega einhver eftirspurn eftir okkur stjórnmálamönnum á erlendri grund, forsætisráðherra Íslands eða fleiri ráðherrum til jafns á við það sem eftirsóknin er eftir vel menntuðum læknum, lögfræðingum og hagfræðingum frá þessu landi okkar sem eiga að standa meðal annars undir hækkun skatttekna.

Ég hef áhyggjur af því, frú forseti, að þessar auknu skatttekjur virki letjandi á fólk. Skattahækkanir virka letjandi á meðan skattalækkun virkar hvetjandi. Okkar dugmikla (Forseti hringir.) þjóð vill vinna sig út úr þessu en hún vill ekki láta skattpína sig út úr þessu.