137. löggjafarþing — 30. fundur,  30. júní 2009.

skýrsla fjármálaráðherra um áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum 2009--2013.

126. mál
[17:06]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við höfum kallað eftir því í allan dag að fá upplýsingar um svokallaðar Icesave-skuldbindingar vegna þess að við teljum að forsendurnar fyrir þessu plaggi sem verið er að kynna hér í dag muni bresta við það. Nú höfum við fengið þessar upplýsingar, skuldbindingarnar liggja á bilinu 310 til 520 milljarðar. Þetta mun verða þannig samkvæmt mati fjármálaráðuneytisins að frá 2016 þegar við byrjum að borga Icesave-skuldbindingarnar borgum við um 70 milljarða fyrsta árið bara vegna þeirra skuldbindinga, sem er eins og rúmlega allt menntakerfið á Íslandi þannig að við getum skorið það af. Þetta mun lækka fram til ársins 2023 niður í kringum 55 milljarða þannig að við erum að borga 70, 65, 60 og niður í 55 milljarða í átta ár.

Þetta eru þær forsendur sem plaggið sem hefur verið rætt hér í dag byggist á. Þetta er algjörlega marklaust. Og núna eru verstu martraðir mínar um Icesave að rætast. Hér er úttekt frá valdhöfunum þar sem sýnt er fram á svart á hvítu að það er rétt sem menn hafa talað um að þessar skuldbindingar eða réttara sagt skuldir sem þarf að borga — ekki skuldbindingar, þær eru mun hærri — eru samkvæmt þeirra mati að lágmarki 70, 60, 50 milljarðar á ári. Þetta var til að hjálpa hv. þm. Ólöfu Nordal í ræðu sinni.