137. löggjafarþing — 30. fundur,  30. júní 2009.

skýrsla fjármálaráðherra um áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum 2009--2013.

126. mál
[17:48]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég varð fyrir miklum vonbrigðum með svarið. Eins og mig grunaði eru í rauninni engin rök fyrir fullyrðingum um að við munum njóta einhvers konar fyrirgreiðslu frá Evrópusambandinu. Það getur vel verið að bara við það eitt að austantjaldsþjóðir hafi hafið sitt umsóknarferli — og þar líka lá það nú fyrir að þær mundu fara inn í Evrópusambandið — að hagur þeirra hafi vænkast á einhvern hátt. Við Íslendingar erum í allt annarri stöðu, allt annarri stöðu. Við erum í EES. Við tökum yfir 80–90% af öllu regluverki Evrópusambandsins, (Gripið fram í.) öllu, 75% svo ég leiðrétti það. Þetta eru fullyrðingar sem eiga ekki við nein rök að styðjast og eiga engan veginn við þá aðstöðu sem Íslendingar eru komnir í, hvað þá það að Íslendingar muni auka trúverðugleika sinn sem er því miður undir forsæti Samfylkingarinnar algerlega hruninn.