137. löggjafarþing — 30. fundur,  30. júní 2009.

skýrsla fjármálaráðherra um áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum 2009--2013.

126. mál
[18:02]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég trúi því að það hafi náðst talsvert mikill árangur á yfirstandandi ári í því að auka aga og aðhald í ríkisrekstrinum og ég heyri það á fjárlaganefndarmönnum hvar í flokki sem þeir standa að þeir hafa mikinn metnað til þess að fjárlaganefndin beiti sér sérstaklega í því. Ég held að það væri mjög til bóta að sjá aðhald frá fjárlaganefnd Alþingis í þessum efnum. Ég sat í fjárlaganefnd á fyrsta kjörtímabili mínu og kynntist þá vel ríkisrekstrinum og þekki að þar er sannarlega ekki vanþörf á meira aðhaldi.

Um stóreignaskatt held ég að ekki sé mikill vilji til þess að ræða, þ.e. skattlagningu á íbúðarhúsnæði fólks eða aðra slíka skattlagningu eins og menn þekkja frá fyrri árum og kallaður var ekknaskattur þó að menn útiloki kannski ekki með öllu einhverjar hugmyndir ef um mjög miklar eignir er að ræða. Háar tekjur voru skilgreindar núna t.d. í sérstaka tekjuskattinum, að yfir 700 þúsund kr. skyldi sæta sérstakri skattlagningu og við erum þá komin með þrepaskipt (Forseti hringir.) skattkerfi í raun. Ég held að það sé ósköp eðlilegt að ræða við aðila vinnumarkaðarins og í samfélaginu um hvort við eigum að endurskoða eitthvað þetta skattkerfi sem er orðið (Forseti hringir.) 20 ára gamalt og reyna að þróa það frekar.