137. löggjafarþing — 30. fundur,  30. júní 2009.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

125. mál
[18:41]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kann að vera að það sé ekki nægilega skýrt sett fram í greinunum sem slíkum og að eitthvað mætti skerpa á þeim en ég held að enginn vafi sé á því og það fram kemur í greinargerðinni eins og hv. þingmaður nefndi að við erum að tala um eitt atkvæði, einn maður. Það er alveg ljóst. Sú nefnd sem fær þetta frumvarp til meðferðar mun auðvitað skoða það ef ástæða er til að skerpa á því eitthvað frekar. Það er gert ráð fyrir að kosið sé í hverju kjördæmi fyrir sig með hefðbundnum hætti eins og verið hefur en það sé eitt atkvæði, einn maður, alveg sama í hvaða kjördæmi það er. Ég held að það sé alveg nauðsynlegt að það liggi alveg klárt fyrir og þykir miður ef eitthvað er óljóst í þessu máli.

Síðan spyr hv. þingmaður um einfaldan meiri hluta þingmanna hvort það sé hann sem ráði. Það er með þeim hætti að það er einfaldur meiri hluti þingmanna sem ræður samkvæmt ákvæðum þessa frumvarps. Ég held að það sé mikilvægt að það sé með þeim hætti. Það er misjafnt í öðrum löndum hvernig það er, hvort það er aukinn meiri hluti en hér er lagt til að einfaldur meiri hluti þingmanna dugi í þessu efni. Að mínu viti er það alveg fullkomlega nægjanlegt að það sé með þeim hætti og að ekki þurfi aukinn meiri hluta. Það hefur lengi verið kallað eftir ákvæðum um þjóðaratkvæðagreiðslu hér á landi og ég held að við eigum ekki að gera málið flóknara en það þarf að vera í þessu efni.