137. löggjafarþing — 30. fundur,  30. júní 2009.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

125. mál
[18:45]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef mikinn áhuga á að heyra skoðanir hæstv. forsætisráðherra á því að leyfa minni hluta þingmanna að senda mál í þjóðaratkvæðagreiðslu. Mér skilst að þannig sé fyrirkomulagið í Danmörku. Mig langar einnig til að vita hver sé ástæðan fyrir því eða hvort hæstv. forsætisráðherra geti kannski skýrt það aðeins betur, hún ræddi það aðeins í ræðu sinni, að það var ákveðið að takmarka ekki þá málaflokka eða þau málefni sem gætu farið í þjóðaratkvæðagreiðslu en í Danmörku skilst mér að það séu fjárlögin sem ekki megi vísa í í þjóðaratkvæði og þar með sé litið svo á að viðkomandi ríkisstjórn sé að marka sér ákveðna stefnu eða stefnumörkun til framtíðar með fjárlögunum og þess vegna eigi minni hlutinn ekki að geta vísað því máli í þjóðaratkvæði. Ég hef mikinn áhuga að heyra frá hæstv. forsætisráðherra varðandi það.

Síðan væri kannski ágætt að fá svör frá henni varðandi athugasemdir núverandi hæstv. fjármálaráðherra, um þjóðaratkvæðagreiðslu í máli sem honum var mjög annt um og þar segir hann, með leyfi forseta: „Treystir ekki þjóðinni“, og talar um að það heyrist stundum, að það hljómi einstaka hjáróma rödd um að sum mál séu svo flókin að þau henti ekki í þjóðaratkvæði og hvort hæstv. forsætisráðherra telji kannski að í Icesave-málinu sé hennar rödd svolítið hjáróma.