137. löggjafarþing — 30. fundur,  30. júní 2009.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

125. mál
[19:45]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi Icesave vil ég geta þess að það er einfalt að leysa það mál. Það er hægt að hafna samningnum hér á þingi og einfaldlega semja upp á nýtt. Við þurfum alla vega að sjá betri gögn en við fengum í dag til þess að átta okkur á því að við verðum sett í einhverja sóttkví þó að við höfnum samningnum hér. Við þurfum einfaldlega að sjá betri og meiri gögn til þess. Ég er í rauninni sammála þessu prinsippi sem hæstv. forsætisráðherra kom inn á að það eru ákveðin málefni sem erfitt er að setja í þjóðaratkvæðagreiðslu eins og skattamálefni, fjárhagsmálefni er snerta ríkið og svo framvegis. Í Icesave er einfalda leiðin þá bara að segja nei við þeim samningi.

Síðan er hitt. Það er varðandi Noreg. Noregur er ekki alveg sambærilegt hvað þetta varðar því að þó að menn hefðu sagt já hefðu þeir ekki þurft að fara í kosningar eftir slíka þjóðaratkvæðagreiðslu. Við þurfum að breyta stjórnarskránni í tengslum við Evrópusambandið, fullveldisákvæðinu sérstaklega. Það er alveg ljóst að við getum ekki annað en haft þetta ráðgefandi meðan ekki er búið að breyta stjórnarskránni. Ég dró fram dæmi áðan. Að mínu mati er raunhæft að það gerist að í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu verði naumur meiri hluti fyrir aðild að Evrópusambandinu, síðan fari aftur af stað önnur herferð í kosningunum sem fylgja í kjölfarið, einfaldlega þeirra sem eru harðir ESB-andstæðingar. Það er allt eins líklegt að þeir nái þá þannig tökum á þinginu og þeir eru ekki bundnir af ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Þeir eru bara bundnir eins og við öll — og það hefur margoft verið ítrekað — eingöngu af okkar sannfæringu.

Ég vil engu að síður leyfa mér að segja að mér fannst ég greina ákveðinn skilning hjá hæstv. forsætisráðherra varðandi bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu og ég leyfi mér að vona að sá skilningur minn sé réttur að forsætisráðherra muni beita sér fyrir því að það verði um raunverulega bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu að ræða þegar og ef þjóðin fær að greiða atkvæði um samninginn.