137. löggjafarþing — 31. fundur,  1. júlí 2009.

þjóðaratkvæðagreiðsla um ESB -- peningamálastefnan -- lán frá Norðurlöndum.

[13:36]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Ég beini spurningu til hv. þm. Helga Hjörvars. Getur hann upplýst þingið um hvort hafin sé vinna við endurskoðun peningamálastefnu Seðlabankans? Sé svo, hvar er sú vinna stödd og hverjir eru að vinna hana? Það er gríðarlega mikilvægt að það verði tekið á þessum málum sem fyrst vegna þess að það er hornsteinn allrar efnahagsstefnu og allrar efnahagsstjórnar. Forsenda hennar hlýtur alltaf að vera peningamálastefnan og ég er þeirrar skoðunar og hef lýst því margoft að sú stefna sem hefur verið við lýði á undanförnum árum hafi verið röng. Í raun og veru var gerð tilraun til að taka lán í útlöndum til að halda gengi krónunnar sterku til að koma í veg fyrir verðbólgu. Það segir sig sjálft að það að byggja peningamálastjórnarstefnu upp á erlendri lántöku getur aldrei gengið upp.

Í vor voru til umræðu í þingsal lög um Seðlabankann. Í þeirri umræðu margítrekuðum við sjálfstæðismenn að líta þyrfti á þær greinar laganna þar sem fjallað væri um markmið peningamálastjórnarinnar, um verðbólgumarkmið og annað slíkt. Það fékkst ekki rætt og því er eðlilegt að við köllum eftir því nú og heyrum sjónarmið ríkisstjórnarflokkanna um það hvar þessi vinna er stödd, hvort hún sé í gangi og hverjir séu að vinna hana.