137. löggjafarþing — 31. fundur,  1. júlí 2009.

þjóðaratkvæðagreiðsla um ESB -- peningamálastefnan -- lán frá Norðurlöndum.

[13:57]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Aðeins til að fylgja því eftir sem hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson vék að hér áðan er það kannski ofmælt að segja að ríkisstjórnin hafi ætlað sér að endurskoða peningamálastefnu Seðlabankans. Í stjórnarsáttmálanum virðist mér koma skýrt fram að ríkisstjórnin ætli sér bara að láta Seðlabankann endurskoða peningamálastefnuna. Ríkisstjórnin ætlar ekki að fara sjálf í þetta verkefni, heldur framselja það til Seðlabankans og þar eru, eins og kunnugt er, við völd þeir menn sem telja má helstu höfunda núverandi peningamálastefnu. Það eru sem sagt þeir sem eiga að endurskoða.

Annað mál, ég ætlaði að víkja örstutt að þeirri umræðu sem hér átti sér stað um þjóðaratkvæðagreiðslu og Evrópusambandsmál. Það er rétt sem komið hefur fram að bindandi þjóðaratkvæðagreiðsla verður ekki ákveðin að óbreyttri stjórnarskrá. Ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla er möguleg en verði þjóðaratkvæðagreiðsla um Evrópusambandið aðeins ráðgefandi er alveg ljóst að það er þingið sem hefur síðasta orðið. Þá er það ekki þjóðin sem hefur síðasta orðið. Menn geta lagt mismunandi merkingu í það hvaða pólitísku skilaboð felast í niðurstöðum þjóðaratkvæðagreiðslu en það er alveg klárt að stjórnskipulega verður það þingið en ekki þjóðin sem hefur síðasta orðið um Evrópusambandið að óbreyttri stjórnarskrá.

Þá kem ég að því sem mér finnst kannski skipta mestu máli í þessu, því að ríkisstjórnin hefur farið fram með ýmsar tillögur sem varða þessi mál, bæði um umsókn um Evrópusambandsaðild og um þjóðaratkvæðagreiðslur og fleiri þætti líka, án þess að setja hlutina í samhengi, án þess að af hálfu ríkisstjórnarinnar hafi verið af lagður fram einhver vegvísir eða áætlun um það í hvaða skrefum eigi að taka þessi mál. Það er t.d. ljóst að stjórnarskrárbreytingar eru algjörlega nauðsynlegar jafnvel þó að menn ákveði að hafa þjóðaratkvæðagreiðsluna ráðgefandi (Forseti hringir.) vegna þess að Ísland getur ekki orðið aðili að Evrópusambandinu að óbreyttri stjórnarskrá. Það er bara ekki heimilt.