137. löggjafarþing — 31. fundur,  1. júlí 2009.

bílalán í erlendri mynt.

60. mál
[14:23]
Horfa

viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Frú forseti. Mér hefur borist fyrirspurn í fjórum liðum frá Birki Jóni Jónssyni hv. þingmanni um bílalán í erlendri mynt.

Í fyrsta lagi spurði þingmaðurinn um það hversu margir einstaklingar væru með erlend lán þar sem bifreið viðkomandi væri sett að veði. Því er til að svara að þessar upplýsingar lágu ekki fyrir í ráðuneytinu og var því óskað eftir þeim frá Seðlabanka Íslands. Í svari Seðlabankans kemur fram að 40.414 einstaklingar eru með fjármögnun bifreiðar í erlendri mynt. Þar er bæði um að ræða samninga eða lán sem eru að fullu í erlendum myntum og einnig samninga eða lán sem eru að hluta í íslenskum krónum og að hluta í erlendri mynt. Í flestum tilvikum eru bílasamningar í meiri hluta þar sem um er að ræða eignarleigu- eða rekstrarleigusamninga þar sem lánafyrirtækið hefur fyrsta veðrétt í bifreiðinni án þess að um þinglýst veð sé að ræða og eignarleigufyrirtækið er með eignarrétt á bifreiðinni á meðan á samningstíma stendur. Ef skuldari greiðir ekki er bifreiðin seld og skuldara ber að greiða eftirstöðvar skuldarinnar rétt eins og um veðskuld sé að ræða.

Í öðru lagi spurði þingmaðurinn um upphæð þessara lána. Samkvæmt þeim upplýsingum sem fengust hjá Seðlabankanum er heildarupphæð umræddra lána rétt ríflega 115 miljarðar kr.

Í þriðja lagi spurði þingmaðurinn um verðmæti þeirra veðsettu bifreiða sem hér um ræðir. Því er til að svara að nánast ómögulegt er að segja til um hvert verðmæti þessara bifreiða er. Þarna spilar inn í þróun á markaði, bæði hvað varðar þróun gengis vegna lánasamninga og verð á bílum og hið alkunna lögmál um framboð og eftirspurn. Á síðustu mánuðum hefur mjög dregið úr sölu og nýskráningum nýrra og notaðra bifreiða hefur fækkað gífurlega. Í flestum tilvikum var upphaflega gengið út frá því að bifreiðarverðið mundi standa undir áhvílandi láni en í ljósi gengisfalls undanfarna mánuði er ljóst að áhvílandi lán eru í mörgum tilvikum komin upp fyrir ætlað markaðsverð eða verðmæti bílsins.

Í fjórða lagi var spurt hvort ég sem viðskiptaráðherra hygðist grípa til aðgerða til að aðstoða þá einstaklinga sem skulda bílalán í erlendri mynt. Ég vil vegna þessa fyrst taka fram að flestar lánastofnanir bjóða nú upp á úrræði til þess að koma til móts við þá sem lent hafa í eða eru við það að lenda i greiðsluerfiðleikum. Þau úrræði sem um ræðir felast í frystingu á afborgunum bílalána í erlendri mynt og/eða frystingu á höfuðstól myntkörfulána þannig að einstaklingar greiði aðeins vextina í tiltekinn tíma. (Gripið fram í.)

Þau úrræði sem helst koma til greina til aðstoðar við skuldsett heimili felast í greiðsluaðlögun, greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna og greiðslujöfnun gengistryggðra húsnæðislána samkvæmt samkomulagi sem undirritað var í apríl síðastliðnum (Gripið fram í.) en ekkert þessara úrræða nær þó til bílalána.

Í rannsókn sem Seðlabankinn gerði nýverið kom fram að dreifing bílaskulda er nokkurn veginn í takt við tekjudreifingu heimila. Þar kom einnig fram að um 80% heimila með bílalán verja innan við 20% ráðstöfunartekna í greiðslur af slíkum lánum og er það væntanlega í flestum tilfellum viðráðanlegt en 11% heimila með bílalán þurfa að verja yfir 30% tekna sinna í greiðslu bílalána sem vitaskuld er afar þungbært í mörgum tilvikum. Rétt er þó að hafa í huga að mjög misjafnt er hve mikið er eftir af upphaflegum lánstíma þannig að í einhverjum tilvikum eru þessi vandamál að leysast af sjálfu sér með því að lánin eru greidd upp.

Þá er rétt að geta þess að nú vinnur starfshópur á vegum viðskiptaráðuneytis, félags- og tryggingamálaráðuneytis og dómsmálaráðuneytis að því að kanna hvort hægt sé að grípa til einhverra aðgerða vegna bílalána í erlendri mynt. Fundaði hópurinn í gær með fyrirsvarsmönnum þeirra fyrirtækja sem veitt hafa bílalán. Þessari vinnu verður flýtt eins og kostur er og verða niðurstöður kynntar strax og þær liggja fyrir.