137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[11:07]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég lít svo á að það frumvarp sem við erum að ganga til atkvæðagreiðslu um í dag sé mikilvægur liður í því að koma sparisjóðum landsins til björgunar. Allar þær breytingar sem gerðar eru á frumvarpinu í dag eru liður í því björgunarstarfi. Það er ljóst að í þeim tilvikum þar sem sparisjóðirnir eru komnir með neikvætt eigið fé, þ.e. neikvæða varasjóði, eru stofnfjáreigendur nú þegar búnir að tapa því sem nemur hinum neikvæða mismun. Ef ekki kemur til björgunaraðgerða eru slíkir sjóðir komnir í tæknilegt þrot. En það er líka ljóst að stofnfjáraukning sparisjóðanna verður að fylgja almennum jafnræðisreglum og útfærslan á niðurskrift stofnfjár í frumvarpinu er til að laga stofnfjáraukningu að almennum jafnræðisreglum, enda væri tillegg hins opinbera á öðrum forsendum afar hæpið, ef ekki beinlínis andstætt stjórnarskrá. Þess vegna segi ég já og hafna algerlega þeim hugmyndum um að við séum að ríkisvæða sparisjóðina. Við erum að koma þeim til bjargar núna til að (Gripið fram í.) varðveita sparisjóðakerfið.