137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[15:08]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst af öllu ætlaði ég að hrósa hv. þingmanni fyrir staðfestuna því að hann hefur alltaf verið andvígur því að greiða nokkuð vegna þessara skuldbindinga og að samið yrði um þær með nokkrum hætti alveg frá því í haust og er ólíku saman að jafna afstöðu hans og flautaþyrilshættinum í afganginum af Sjálfstæðisflokknum sem hleypur hér frá verkum sínum svo hratt að auga vart festir á.

Það verður að segjast alveg eins og er að sá skilningur sem hv. þingmaður leggur í innstæðutryggingarkerfið stenst ekki alfarið því að þetta er tryggingakerfi sem á að tryggja innstæður þannig að fólk geti vitað af því að það geti gengið að innstæðutryggingunni óháð inngreiðslum. Hins vegar segir í tilskipuninni að það eigi að fjármagna það með inngreiðslum úr bönkum. Þar af leiðir að ábyrgðin á því að nægilegt fé sé í tryggingarsjóðnum hlýtur alltaf að vera ríkisstjórnarinnar sem innleiðir kerfið. Ef menn samþykktu að farið yrði í þessa sjóræningjastarfsemi í öðrum löndum þá sjáum við eftir á að hyggja að auðvitað hefði þingheimur átt að kalla eftir breytingum á löggjöfinni og auðvitað hefði þá átt að auka greiðsluskylduna þannig að það væri þá greidd önnur (Forseti hringir.) hver króna sem inn kæmi úr þessum reikningum inn í innstæðutryggingarkerfið.