137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[21:29]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Það hefði verið ágætt að geta átt andsvar við einhvern samfylkingarmann á þessu kvöldi en það er því miður ekki hægt vegna þess að sá stóri flokkur hefur ekki haft fyrir því að mæta í umræðuna upp úr kvöldmat. (Gripið fram í.)

Hæstv. forsætisráðherra sagði að í þessu máli væri hún að moka framsóknarflórinn. Hæstv. forsætisráðherra, þáverandi hæstv. félagsmálaráðherra, hafði verið í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum í tvö ár. Staðreyndin er sú að á þessum tveimur árum, þ.e. frá miðju ári 2007, áttfaldaðist heildarupphæð Icesave í Bretlandi plús að í maí árið 2008, á meðan íslenska fjármálaeftirlitið og breska fjármálaeftirlitið voru að tala um hversu óhugnanlega Icesave-reikningarnir stækkuðu í Bretlandi, fékk Landsbankinn heimild til þess að fara í útrás til Hollands. Gríðarlegar upphæðir söfnuðust þar á meðan ráðherrar í þeirri ríkisstjórn voru að ræða sín á milli, og þar á meðal hæstv. núverandi forsætisráðherra, um hvað þetta væri allt saman ógnvænlegt.

Þá velti ég því fyrir mér: Hver ber ábyrgð á þessari hækkun? Hefði Fjármálaeftirlitið átt að sinna þessu eftirliti betur? Hver fór með þann málaflokk? Mér hefur fundist í umræðunni hér að Samfylkingin beri í raun og veru enga ábyrgð á stöðu mála og það sé verið að hreinsa upp eftir langa valdatíð Sjálfstæðisflokksins. Það hefur ekki mátt minnast á ábyrgð Samfylkingarinnar í þessari umræðu enda er Samfylkingin ekki í salnum. Hún er ekki til andsvara enda hefur hún að eigin sögn ekki komið neitt nálægt hlutunum. (Gripið fram í.)

Nú væri því ágætt að fá það fram hjá hv. þm. Jóni Gunnarssyni hvort hann telji að Samfylkingin, þ.e. stjórnmálaflokkurinn, beri einhverja ábyrgð í þessu máli.