137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[13:09]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Þá er komið til 3. umr. það frumvarp sem við ræddum allítarlega þegar það var til umfjöllunar við 2. umr. málsins. Eins og þar kom fram er mjög mikill ágreiningur um málið og mörg okkar hafa efasemdir um að það nái tilætluðum markmiðum og það er í raun samhljómur milli skoðana okkar og flestra þeirra sem hafa komið að sparisjóðamálunum úti um landsins dreifðu byggðir.

Menn hafa mjög miklar áhyggjur af því sem hér er verið að gera og hér er verið að lögfesta. Það fer ekkert á milli mála að eins og málið er lagt upp núna mun það í besta falli hafa í för með sér óvissu og því miður er langlíklegast að það muni hafa í för með sér gríðarlega mikinn fjárhagslegan skaða þegar til lengri tíma er litið fyrir margar byggðir landsins. Það hefur komið mjög glögglega fram t.d. í heimsóknum fulltrúa af svæðum þar sem sparisjóðirnir gegna miklu hlutverki og við höfum hitt að máli sem og þingmenn einstakra kjördæma og ég veit að sambærilegum sjónarmiðum hefur verið komið á framfæri við hv. viðskiptanefnd.

Það voru nokkrar vonir bundnar við það þegar ákveðið var að málið færi til viðskiptanefndar milli 2. og 3. umr. málsins. Við vitum það sem þekkjum til í störfum þingsins að það er ekki alvanalegt að mál fari til nefndar milli 2. og 3. umr. máls. Oftast nær er búið að ljúka hinni efnislegu umræðu um málið þegar til 2. umr. kemur og 3. umr. er þess vegna stutt og sjaldnast fer málið til nefndar milli þessara tveggja umræðna. Það á hins vegar oft við, ef það gerist, þegar um er að ræða mál sem er mikið að vexti og skiptir miklu máli og eins þegar það liggur fyrir að grundvallarspurningum í málinu er ósvarað. Það átti við um þetta mál þegar það fór til viðskiptanefndar og stofnfjáreigendur, sveitarfélög, viðskiptavinir sparisjóðanna bundu þess vegna vonir við að tekið yrði af alvöru á því sem hefur valdið miklum kvíða víða í byggðum landsins. Þess vegna verð ég að játa að það olli mér miklum vonbrigðum þegar ég sá að það eina sem kom út úr þessu áþreifanlega fyrir okkur sem sitjum í þinginu var breytingartillaga sem hv. formaður nefndarinnar, Álfheiður Ingadóttir, flutti og er í raun og veru engin efnisbreyting á frumvarpinu heldur eingöngu, svo ég noti orðalag sem eignað var einhverjum gesta nefndarinnar, einhvers konar „snikkerí“ á frumvarpinu.

Það er með öðrum orðum alveg ljóst í hvað stefnir varðandi þetta mál. Það stefnir í það að ríkisstjórnin ætli að ná því fram sem hefur verið og var auðvitað þungamiðjan í þessu máli sem er að opna lagalega heimild til að færa niður stofnféð í sparisjóðunum. Það er þungamiðjan í þessu máli. Annað skiptir auðvitað máli en þetta er grundvallaratriðið og mun hafa mestu áhrifin og hefur auðvitað valdið mestri ólgu úti um allar byggðir landsins. Og það er alveg sama hvað menn segja sem eru að reyna að tala fyrir þessu máli, það er sjónarmið þess fólks sem við á að búa að þessi niðurstaða ríkisstjórnarinnar og ríkisstjórnarmeirihlutans sem hér er verið að kunngera muni hafa mjög alvarlegar afleiðingar víða úti um byggðir landsins. Þeir þingmenn sem ættu að þekkja vel til aðstæðna í þessum efnum geta auðvitað ekki skáskotið sér undan ábyrgð í þeim efnum. Málið er að verða að lögum og verður að lögum með tilstyrk þeirra þingmanna sem styðja ríkisstjórnina og verða þess vegna ábyrgðaraðilar að því ástandi sem mun koma upp hvernig sem það birtist á næstu vikum. Þess vegna verð ég að segja, virðulegi forseti, að það voru mjög mikil vonbrigði að sjá að þegar fjallið tók jóðsótt þá fæddist agnarlítil mús í formi þessarar breytingartillögu sem engu máli skiptir fyrir efni málsins.

Eins og hér hefur verið bent á er þetta ekki spurning um að bjarga stofnfjáreigendum. Ég ætla að árétta það, svo það fari ekkert á milli mála, sem ég nefndi í 2. umr. að sjálfur er ég stofnfjáreigandi. Mér væri það að meinalausu að mitt stofnfé hyrfi ef það væri til þess að greiða fyrir málinu en það er hins vegar ekki það sem málið snýst um. Málið snýst um það með hvaða aðferðum við ætlum að tryggja að sparisjóðafyrirkomulagið, sparisjóðakerfið í landinu geti haldið velli.

Það var ákveðið í neyðarlögunum í október að lagðir skyldu til hliðar sérstakir fjármunir til að leggja inn í sparisjóðina af hálfu ríkisins. Af hverju var það gert? Það var gert vegna þess að mönnum var alveg ljóst að ekki yrði hægt að fá almenna fjárfesta til að leggja fé inn í sparisjóðina. Aðstæður væru þannig, og þær aðstæður hafa því miður ekki breyst að því leytinu, að það væri borin von um að almennir fjárfestar sem sækjast eftir ávöxtun á sínu fé kæmu inn í þessa sjóði. Þess vegna var niðurstaðan sú að það væri skynsamlegt vegna mikilvægis sparisjóðakerfisins í landinu að ríkið kæmi til skjalanna með tiltekinni upphæð og legði sparisjóðunum til fé og síðan auðvitað í þeirri von að hægt væri að fá fleiri aðila að því máli ef unnt væri, svo sem eins og aðra stofnfjáreigendur, t.d. aðila sem hafa hagsmuni af því að sparisjóðirnir starfi í sínum byggðum o.s.frv. Sú aðferðafræði sem verið er að leggja til í þessu frumvarpi, sem verður gert að lögum væntanlega á þessum sólarhring eða fljótlega, mun hins vegar koma í veg fyrir að hægt verði að ná þessu fé frá stofnfjáreigendum og fólki úti í byggðum landsins vegna þess að menn munu hafa fengið smjörþefinn af því hvað það þýðir þegar þeir leggja fjármuni sína í sparisjóði með þessum hætti. Sú hætta er uppi að stofnfé verði fært ríflega niður og þá skipta engu máli fögur orð og fögur fyrirheit og væntumþykjuyfirlýsingar í garð sparisjóðanna ef málin verða unnin með þeim hætti sem verið er að leggja drög að hér.

Hér er með öðrum orðum fyrst og fremst verið að leggja drög að því í 7. gr. þessa frumvarps að færa niður stofnféð. Síðan er það útskýrt nánar bæði í nefndaráliti meiri hlutans og hefur komið skýrt fram í ræðum þeirra sem hafa verið talsmenn þessa meirihlutaálits að ætlunin sé að færa þetta stofnfé niður að raunvirði eins og það er kallað. Förum aðeins yfir stöðu málanna. Staðan er sú að sparisjóðirnir eru sannarlega misjafnlega á sig komnir en almennt getum við sagt að sparisjóðakerfið er núna í mjög miklum fjárhagslegum vanda. Lausafjárstaða margra þessara sparisjóða er sterk en efnahagsleg staða þeirra er veik. Þetta kann að vera mótsagnakennt en þannig er þetta. Þeir hafa nægilegt lausafé en hins vegar er eiginfjárstaðan slök og fyrir því eru nokkrar ástæður.

Sumir þeirra urðu fyrir mjög miklu áfalli þegar bankakerfið hrundi, þ.e. þegar stóru bankarnir hrundu í upphafi októbermánaðar. Þeir áttu talsvert af eigin fé sínu bundið í eignarhluta, beinum eða óbeinum, í þessum fjármálastofnunum og urðu þess vegna fyrir miklu áfalli. Þeir höfðu ekki fjárfest þar vegna þess að þeir væru í einhverju gambli eins og stundum er talað um. Þeir höfðu fjárfest þar vegna þess að á því voru sögulegar skýringar. Sparisjóðirnir höfðu komið að uppbyggingu Kaupþings, eignarhlutur þeirra í Kaupþingi færðist yfir í Exista og síðan þekkja allir atburðarásina.

Í öðru lagi eru sparisjóðirnir í vanda vegna þess að þeir voru eðlis síns vegna í miklu og nánu samstarfi, m.a. í samstarfi gegnum Sparisjóðabankann. Leið þeirra og aðgangur að erlendu lánsfé fór í gegnum Sparisjóðabankann. Þegar sá banki féll illu heilli gerðist það að eigið fé margra þessara sjóða nánast þurrkaðist upp eða minnkaði mjög verulega. Þetta var ekki vegna þess að þeir væru að taka einhverja áhættu í eðli sínu, þeir voru fyrst og fremst að reyna að viðhalda því kerfi sparisjóðanna sem hafði verið við lýði í landinu í 100 ár eða meira. Forsendan fyrir því að það stæði var þetta samstarf, forsendan fyrir því að þeir gætu sinnt lánafyrirgreiðslu við viðskiptavini sína var að þeir gætu skaffað erlent lánsfé. Eftirspurn var eftir erlendu lánsfé, eðlilega, á síðustu árum og ef sparisjóðirnir áttu að geta sinnt viðskiptavinum sínum urðu þeir að fá aðgang að erlendu lánsfé og fyrir lítinn sparisjóð var það auðvitað borin von að fara út á erlendan lánamarkað. Þeirra eina von fólst í því að þeirra sameiginlegi banki, Sparisjóðabankinn, sem seinna hét Icebank — og gæti ég svo sem haft ýmis orð um þá þróun sem sá banki tók — gæti aflað þeim þessa lánsfjár. Þegar hann hrundi þá hrundi umtalsverður hluti af þeirra eigin fé.

Síðan til viðbótar vitum við að núna eru uppi vaxandi kröfur um það hvernig menn meta útlán fjármálastofnana. Eignavirði í landinu hefur lækkað, það þekkja allir tölurnar um eignarýrnunina sem hefur orðið t.d. á húsnæðismarkaðnum. Við sem þekkjum til í sveitum landsins vitum t.d. að eignavirðið í landbúnaði hefur snarminnkað sem hefur auðvitað mjög mikil áhrif á eigið fé ýmissa banka og síðast en ekki síst er það svo að menn meta með öðrum hætti núna eignir í sjávarútvegi heldur en áður. Þetta hefur auðvitað haft þessi alvarlegu áhrif á sparisjóðina.

Það sem núna blasir við að gera þarf er bæði að afla nýs fjár í gegnum ríkið eins og í sjálfu sér er verið að árétta með þessu frumvarpi — það var ekki verið að ákveða það, það var ákveðið í neyðarlögunum frá því í haust og það var enn fremur kortlagt betur með reglum sem samþykktar voru af þáverandi ríkisstjórn í desembermánuði sl. — og það sem þarf síðan til viðbótar er aukið stofnfé og það stofnfé munu menn ekki sækja út á markaðinn núna fremur en síðastliðið haust. Í haust gerðu menn sér algerlega grein fyrir því að þeir fjármunir yrðu ekki sóttir í krafti þess að fjármagnseigendur, þeir sem vildu leggja fé í atvinnurekstur í því skyni að fá ávöxtun á sitt eigið fé, séu líklegir til að gera það með því að fjárfesta í litlum sparisjóðum úti á landi. Það munu þeir ekki gera. Þess vegna eiga þessir sparisjóðir líf sitt undir því að fá aukið stofnfé frá heimaaðilum. Og ég ætla bara að segja það sem mitt mat í þessum efnum að það er ákaflega ólíklegt að það muni takast ef niðurstaðan verður sú sem ég óttast að stefni í með þessu frumvarpi að stofnfé verði fært niður svo mjög að margir stofnfjáreigendur úti um byggðir landsins verði fyrir miklu efnahagslegu áfalli. Þess vegna segi ég að þetta mál getur ekki snúist um prívat og persónulegan hag stofnfjáreigenda þó að það skipti máli, þetta er spurningin um sjálft sparisjóðakerfið sem við ræðum hér. Þetta er grundvallarspurning, þetta er stór spurning, þetta er stórmál sem við erum að fjalla um og örlagastundirnar geta verið að renna upp núna.

Mér hefur fundist satt að segja, virðulegi forseti, að það hafi lítið borið á þeirri umræðu sem ég hefði búist við frá sveitarfélögunum í landinu. Ég hefði t.d. gert ráð fyrir að ýmis sveitarfélög hefðu vakið athygli á því hvaða gífurlegir hagsmunir eru hér í húfi. Sparisjóðirnir eru auðvitað mjög mikilvæg atvinnufyrirtæki víða í byggðunum. Þeir eru einstæð fyrirtæki að því leytinu að þeir eru oft og tíðum að bjóða fram atvinnustarfsemi af því tagi sem annars er ekki til staðar. Þetta eru líka einstæðar stofnanir að því leytinu að þær koma til skjalanna þegar ríkisbankarnir og einkabankarnir hafa kært sig kollótta um þátttöku í fjármagnsfyrirgreiðslu fyrir fyrirtækin úti á landi. Síðast en ekki síst, einmitt af þeim tveimur ástæðum sem ég var að nefna, hafa sveitarfélögin verið að leggja umtalsverða fjármuni, sum hver að minnsta kosti, inn í þessa sparisjóði í formi stofnfjár. Þau hafa ekki litið svo á að þetta væri hlutafé sem ætti að bera væntingar um varðandi ávöxtun sem menn eiga stundum um hlutafé. Menn hafa eingöngu horft á þetta til þess í fyrsta lagi að ná þarna byggðalegum markmiðum og í öðru lagi að það yrði gert með þeim hætti að stofnféð yrði a.m.k. ekki fært niður fyrir það sem það er að nafnvirði.

Ég þekki dæmi um lítil sveitarfélög sem munu hvert um sig kannski verða fyrir 150–200 millj. kr. tapi ef stofnféð verður fært niður í þeim sparisjóðum sem þau hafa lagt fjármuni inn í, 150 millj. kr. tapi. Þetta er áfall. Og ég spyr: Hefur hæstv. samgönguráðherra ekki komið að þessu máli? Ráðherra sveitarstjórnarmála? Hefur hann t.d. ekki haft einhverja skoðun á þessu máli? Hefur samgönguráðuneytið ekki haft skoðun á þessu máli? Hefur samgönguráðuneytið sem á að fara með hagsmuni sveitarfélaga ekki velt því fyrir sér hvernig það ætlar að bregðast við þegar litlu sveitarfélögin úti á landi verða fyrir þessu gífurlega áfalli? Ég hef ekki haft fyrir því að reikna það upp t.d. hvert það væri að hlutfalli ef við værum með sambærilegt áfall á höfuðborgarsvæðinu. En ég fullyrði að ef svona mál væri uppi sem hefði mögulega sambærileg áhrif á efnahag sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu væri hér stórstríð. Menn tala alltaf um það eins og það sé bara valkvætt hvort menn fari í það að færa niður stofnféð. Það er ekki þannig. Menn eru í þeirri stöðu að verða að fá fjármuni frá ríkinu til að geta styrkt sparisjóði sína og þá eiga menn ekki margra kosta völ og stofnfjáreigendur munu ekki eiga margra kosta völ þegar ríkisvaldið kemur til þeirra og segir: Forsendan fyrir því að þið fáið nokkur hundruð milljónir í sparisjóðina ykkar er sú að þið þurrkið út stofnfé ykkar að miklu eða öllu leyti.

Virðulegi forseti. Ég held að við séum að tala um miklu alvarlegra mál en margan grunar. Það hefur fallið í skuggann fyrir mörgum þeim stóru málum sem hafa verið til umfjöllunar í samfélaginu en þetta er mál sem verðskuldar mikla umræðu og miklu meiri og vandaðri umfjöllun en það er að fá hér vegna þess að ég óttast að afleiðingarnar geti orðið mjög alvarlegar.