137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[13:45]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmanni var tíðrætt um samfélagslega ábyrgð og ég skal ekki gera lítið úr því, fögur hugsjón um heiðardalinn og allt það. Hins vegar höfum við ákveðna reynslu af slíku, við vorum með kaupfélög á Íslandi og kaupfélögin mynduðu blokk sem hét SÍS. Allt var það mjög viðskiptalegs eðlis og gekk eiginlega mikið út á völd og arðsemi og gróða. Ég vil því spyrja hvort ekki sé ákveðin hætta fólgin í þessari hugljómun um samfélagslega ábyrgð þegar um er að ræða einhver batterí eins og sparisjóðina sem eignast mikla peninga í gegnum gróða eða hagnað og það er einhver sem stýrir þessum peningum. Sá sem stýrir þeim getur verið mjög góður maður og gegn en hann getur líka tilheyrt þeim kannski 5% mannkynsins sem ekki eru góð og gegn og fara illa með. (Gripið fram í.) 95% manna eru ágætir, held ég, flestir en 5% eru kannski ekki góðir og gegnir.

Hvað gerist þegar þeir ekki góðu og gegnu komast í það að stýra þessu batteríi, þessu fé sem enginn á og á að vera samfélagsleg eign? Ég minni á að bæði kristni og kommúnismi ganga út á hið sama en kristnin segir: Ef þú átt tvær skyrtur en nágranni þinn enga áttu að gefa honum aðra. Kommúnisminn segir: Ef ég sé svona stöðu tek ég aðra skyrtuna af þeim sem á tvær og læt hinn hafa sem enga á. En alla vega hefur kommúnisminn endað í ósköpum. Sér hv. þingmaður einhverja möguleika á því að þessi samfélagslega ábyrgð og þessi heiðardalshugsun sé einhvern veginn tryggð gegn slíkum ósköpum?