137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

endurskipulagning rekstrarhæfra atvinnufyrirtækja.

1. mál
[20:10]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og skattn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég vil beina því til hæstv. forseta hvort hún vilji beita sér fyrir hönd okkar þingmanna í ljósi þess að við höfum rætt mikið hér um ráðherraábyrgð með tilliti til þeirra breytinga sem við ræðum nú á frumvarpinu við 3. umr. og menn eru ekki sammála um það hver ráðherraábyrgðin sé. Þess vegna held ég að æskilegt væri að fá hæstv. fjármálaráðherra hingað til umræðunnar til þess að heyra hans sjónarmið áður en við ljúkum þessari lokaumræðu hér því að hér er um nýja breytingartillögu að ræða. Ég held að það væri mjög mikilvægt fyrir okkur, hvort sem við erum í stjórn eða stjórnarandstöðu, að heyra sjónarmið hæstv. ráðherra, hvernig hann líti á ráðherraábyrgðina með þeim breytingum sem verið er að leggja til á þessari löggjöf hér. Ég fer því fram á það við frú forseta að hún kanni hvort ráðherrann hafi tök á því að mæta hér til umræðunnar.