137. löggjafarþing — 37. fundur,  10. júlí 2009.

ríkisbankarnir -- sparnaður í rekstri þingsins -- samgöngumál -- svar við fyrirspurn.

[10:52]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Við ræðum mörg brýn og erfið mál á vettvangi þingsins þessa dagana en það er engu að síður þannig að efnahagsleg velferð okkar mun auðvitað fyrst og fremst hvíla á því hvort hjól verðmætasköpunarinnar komist aftur í gang. Þess vegna er mikilvægt að hér er verið að afgreiða mál sem lúta að endurskipulagningu fjármálakerfisins og að endurskipulagningu atvinnufyrirtækja í landinu til að greiða fyrir uppbyggingu efnahagslífsins á næstu mánuðum.

Það er hins vegar nokkuð sérkennilegt að heyra fulltrúa stjórnarandstöðunnar hrópa um það í öðru orðinu að hér sé ekkert aðhafst en í hinu orðinu að verið sé að keyra í gegn hvert málið á fætur öðru í sama málaflokknum, því að hvort tveggja getur ekki verið. Annaðhvort hlýtur stjórnarmeirihlutinn að vera að draga lappirnar eða hann hlýtur að vera að keyra hér í gegn hvert málið á fætur öðru. Ég held að það sé út af fyrir sig rétt að hann er að keyra í gegn hvert málið á fætur öðru sem varðar það að koma hjólum atvinnulífsins aftur í gang sem betur fer og skárra væri það nú.

Alþingi hefur fengið býsna langan tíma til að fjalla um það mál sem að efnahags- og skattanefnd snýr og er hér til afgreiðslu á eftir, (Gripið fram í: Ekki …) enda bendi ég á að það mál er númer eitt á yfirstandandi þingi og hefur því legið hér fyrir frá því að þing koma saman í vor og var jafnframt lagt fram á síðasta þingi. Ég verð að játa að ég á bágt með að skilja umkvartanir þeirra þingmanna (Gripið fram í.) sem hafa komið upp í þessari umræðu því að það er alls ekki hægt að átta sig á hvort þeim finnist ríkisstjórnin vinna of hratt eða of hægt að endurreisn íslensks atvinnulífs.