137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

breytingartillaga og umræða um ESB.

[11:52]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Það er ekki laust við að manni sé brugðið í dag vegna þess að ég skil ekki þá ákvörðun hæstv. forseta, sem er forseti allra þingmanna, sama úr hvaða flokki þeir koma, en hún hefur lýst því yfir að hún sé að hún verði ekki við beiðni okkar um lengdan ræðutíma. Mér er það algerlega óskiljanlegt hvers vegna þessi ákvörðun er tekin.

Er þetta ekki eitt stærsta mál íslensku þjóðarinnar frá því að lýðveldið var stofnað? Er þetta ekki stærsta mál Samfylkingarinnar? Hafa samfylkingarmenn ekki áhuga á því að ræða þetta mál til hlítar? Er þetta ekki eina mál Samfylkingarinnar? Er þetta ekki málið sem þau ætla að leysa öll okkar vandamál með? Ég ætla að það fólk sem hér situr á vegum síns flokks hefði áhuga á því að lýsa því fyrir okkur hvers vegna það vilji fara þessa leið. Ég skil ekki þessa ákvörðun forseta og ég skil ekki hvers vegna samfylkingarmenn bakka ekki upp þessa kröfu okkar í stjórnarandstöðunni. Ég skora á hæstv. forseta að taka ákvörðun sína til endurskoðunar og leyfa okkur þingmönnum (Forseti hringir.) að hafa þann ræðutíma sem við teljum þörf á. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)