137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[16:29]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. forsætisráðherra svaraði ekki spurningu minni um það hvort henni væri kunnugt um þetta merki sem gefið var eða hótun eða hvað menn vilja kalla það um að stjórninni yrði slitið. Nú er það þannig að það er eingöngu hæstv. forsætisráðherra sem getur slitið ríkisstjórninni. Maður hlýtur að spyrja sig: Er það úr lausu lofti gripið sem sagt var í upphafi þessa fundar?

Þetta ákvæði í stjórnarsáttmálanum er reyndar dálítið undarlegt því að menn áskilja sér rétt í hinum stjórnarflokknum að hafa sjálfstæða skoðun á þessu máli (Gripið fram í.) og þess vegna skilur maður ekki af hverju ekki má greiða um þetta atkvæði.

Ég vil spyrja hæstv. forsætisráðherra til viðbótar við það hvort hún kannist ekki við þessa hótun eða þetta merki sem hv. þingmaður fékk: Ef þessi tillaga yrði felld á Alþingi er það tilefni til stjórnarslita eða geta menn ekki haldið áfram að vinna eins og aðra daga og snúið sér að vandamálum heimila og fjölskyldna í landinu?