137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[17:10]
Horfa

Róbert Marshall (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Þorgerður K. Gunnarsdóttir er í því erfiða hlutverki að tala fyrir hönd stjórnmálaflokks sem er klofinn í herðar niður í því máli sem hér er til umræðu. Og um það er fjallað á heimasíðum og í fjölmiðlum víða um landið og hefur verið gert undanfarin missiri og undanfarin ár.

Sjálfstæðisflokkurinn býður upp á ferðalag án áfangastaðar í þessu máli en það dylst þó engum að hv. þm. Þorgerður K. Gunnarsdóttir er sá þingmaður Sjálfstæðisflokksins sem stendur okkur samfylkingarmönnum hvað næst í afstöðu sinni gagnvart Evrópusambandinu. Hver sá sem skoðar ummæli hv. þingmanns í gegnum tíðina um þetta efni sannfærist um það. Ég vil sérstaklega lesa ummæli sem höfð eru eftir hv. þingmanni í Morgunblaðinu þann 12. mars sl. „Við verðum að fá skýr svör“, sagði Þorgerður, með leyfi forseta. Hún sagði að tvíþætt vandamál mundi leysast með aðild að ESB, peningamálastefnan og gjaldmiðillinn og ekki síður orðspor okkar og viðskiptavildin. Getum við verið ein eða er betra fyrir okkur að vera í samstarfi við aðrar þjóðir?

Hver eru hin skýru svör sem hv. þingmanni verður svo tíðrætt um (Forseti hringir.) við þessum spurningum?