137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[17:27]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Jú, þetta er náttúrlega það sem við erum að fjalla um. Það sem við höfum varðandi Icesave er að við höfum þetta tæki enn þá í hendi okkar, þ.e. að ýta á rauða takkann og segja nei við Icesave út af því að samningurinn er ekki góður. Við teljum að okkar hagsmunum sé ekki nægilega borgið og að ekki hafi verið farið eftir viðmiðunum sem Alþingi samþykkti á sínum tíma. Þetta eru allt hárréttar athugasemdir af hálfu hv. þingmanns.

Mér finnst stundum eins og ég sé að verja hæstv. fjármálaráðherra. Ég ætla samt ekki að segja það — ég er alveg sannfærð um að hann skrifar náttúrlega undir með fyrirvara og hann hefur sannfæringu fyrir því að þetta sé illskásti samningurinn sem við getum staðið frammi fyrir. Hann má eiga það að hann hefur sína sannfæringu á meðan samstarfsflokkur hans reynir að ýta öllu gubbinu yfir á hann. Hann er þó maður að meiri og reynir að standa við þennan samning meðan Samfylkingin í fyrri ríkisstjórn og í þessari ríkisstjórn segist stikkfrí, bendir á þau.